139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[12:34]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég fagna því að hún tekur undir það að breyta þurfi vinnubrögðunum, því að eins og þau eru núna eru þau algjörlega óásættanleg. Þær hugmyndir sem hv. þingmaður bendir á, að taka fjáraukalögin hugsanlega oftar upp er allra góðra gjalda verð en aðalatriðið er þó þetta, sem við erum sammála um, að þingið þarf að koma að ákvarðanatökunni áður en framkvæmdarvaldið hefur tekið ákvarðanir og eytt peningunum. Það er aðalatriðið.

Ég vil síðan ítreka fyrri spurningu mína sem hv. þingmanni gafst ekki tími til að svara sem snýr að því hvort til greina komi að hennar mati að setja rammann um fjárlögin á vorþinginu áður en þingið fer heim og fela síðan framkvæmdarvaldinu að fylla inn í hann ákveðna málaflokka og það yrði síðan lagt fyrir þingið 1. október þegar það kemur saman. Þannig verði það ákveðið af Alþingi hver ramminn á að vera og niðurstaðan í fjármálum ríkisins til framkvæmdarvaldsins áður en framkvæmdarvaldið fer að fylla það út.