139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[12:37]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 1. minni hluta fjárlaganefndar sem er þannig samsettur að auk þess sem hér stendur eru hv. þingmenn Ásbjörn Óttarsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir flutningsmenn að álitinu. Mörg orð mætti hafa um fjárlagafrumvarpið eins og það liggur fyrir í núverandi mynd. Ekki síður mætti hafa fleiri orð um frumvarpið eins og það kom fram í upphafi, en ég læt duga að vísa til ræðunnar sem ég flutti við tækifærið þegar hæstv. fjármálaráðherra lagði það fram í þingsal. Þau orð hafa verið höfð eftir mér um innihald frumvarpsins og einstakar tillögur að þeim bæri að rústa eins og ég komst að orði. Ég skal glaður draga þau orð mín til baka. Við nánari skoðun þurfti ég ekkert að beita mér til þess. Stjórnarliðar og fulltrúar almennings vítt um land sáu sjálfir um það. Andstaðan sem þar kom fram birtist einfaldlega í tillögunum sem hér liggja fyrir.

Eins og fjárlagafrumvarpið er nú búið, að teknu tilliti til breytingartillagnanna sem meiri hluti stjórnarliða hefur gert á því, gætum við með sanni sagt að hér sé um gríðarlega miklar breytingar að ræða á frumvarpinu sem lagt var fram í byrjun ágúst. Það eru mörg hundruð tillögur sem liggja fyrir um breytingar á frumvarpinu, misgóðar að gæðum, ýmislegt er til verulegra bóta, annað er umdeildara. Menn skiptast í tvö horn með það hversu miklar að gæðum breytingartillögurnar eru.

Ég held hins vegar að óumdeilt sé að ástand íslenskra efnahagsmála í dag sé þannig að það kalli á að stjórnmálamenn leiti færa leiða til að ná saman um verkefnið að ná böndum á hallarekstur ríkissjóðs og koma böndum á ríkisfjármálin. Því miður skynja ég fjárlagagerðina með þeim hætti að ríkisstjórnin hafi ekki valdið hlutverkinu að endurreisa íslenskt efnahagslíf í kjölfar bankahrunsins 2008. Það eru hartnær tvö ár liðin frá því hin svokallaða norræna velferðarstjórn tók við stjórnartaumum hér á landi, samstarf Samfylkingar og Vinstri grænna. Á þessum tveimur árum ber mikið á stjórnunarstílnum, þar er stefnuleysi við völd. Að hluta til, sérstaklega innan annars stjórnarflokksins, ber á ákveðnum verkkvíða sem ræður för fremur en örugg verkstjórn eins og boðað var í upphafi.

Eins og ég nefndi í upphafi boðar endurskoðuð þjóðhagsspá ekki góð tíðindi. Því miður sjáum við spár annarra aðila liggja fyrir með svipuðum hætti. Nýjustu spár benda til þess að aðvörunarorðin sem höfð hafa verið uppi um forsendur fjárlagafrumvarpsins hafi því miður reynst rétt. Þetta kallar á að menn reyni eftir föngum að stilla saman strengi eins og ég gat um áðan. Það hefur ekki gengið býsna vel, hverju svo sem er um að kenna liggur ábyrgðin hjá okkur öllum sem að verkinu komum.

Hver er meginvandinn og viðfangsefnið í þessum efnum? Hann er sá að í íslensku samfélagi og í íslensku efnahagslífi ganga hlutirnir með þeim hætti, því miður, að vöxturinn er ekki nægjanlegur svo skattstofnar ríkisins breikki. Í þessari stöðu ber að mínu mati of mikið á þeirri tilhneigingu og stefnu að reyna að skatta sig út úr vandanum. Þar sem það dugar ekki til á að skera niður ríkisútgjöld. Þetta getur ekki verið leið til farsældar. Það er með ólíkindum að horfa til þess að stjórnarmeirihlutinn leggi ekki meira inn til þess að breyta þessu verklagi. Það liggur fyrir mat óvilhallra aðila á vinnumarkaði, í greiningardeildum og sérfræðinga á ýmsum sviðum að til þess að sporna við og eyða atvinnuleysi, sem betur fer gera spár ráð fyrir að dragist saman en er engu að síður í sögulegu hámarki, þá þarf hér á landi u.þ.b. 4% hagvöxt. Ef við viljum eyða atvinnuleysinu, bæta lífskjör frá því sem nú er, er þetta grunnforsendan sem við verðum að kippa í liðinn til þess að vinna þau verk sem eftir er kallað.

Við sjálfstæðismenn viljum allt til þess gera að stuðla að þessum vexti. Við viljum lækka skattálögur á fólk og fyrirtæki. Við viljum ekki standa í vegi fyrir því að menn sæki fram. Við viljum fara aðra leið.

Fylgiskjal með nefndaráliti okkar inniheldur efnahagstillögur þingflokks Sjálfstæðisflokksins sem við lögðum fram í nóvember síðastliðnum. Enn er umræðum um það mál ekki lokið í þinginu, slíkur er nú áhuginn. Það kætir suma stjórnarliða heyri ég, ég veit ekki af hvaða ástæðu svo sem það er, en mér þykir alltaf vænt um að sjá bros á vörum hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, sérstaklega þegar góð tíðindi eru sögð. Það er miður að horfa á brosið þegar honum leiðast hlutir. Ég kýs að skilja glott hv. þingmanns með þeim hætti að hann muni leggja töluvert á sig til þess að taka undir tillögurnar sem við höfum lagt fram.

Ég vil nefna það að nýlega voru kynntar niðurstöður könnunar sem var gerð um verðmætasköpun svokallaðra skapandi greina. Á síðustu árum hefur starfsemi í þessum geira atvinnulífsins vaxið tiltölulega hratt. Þar er um að ræða starfsemi á breiðu sviði, frá ferðaþjónustu til myndlistar. Þessi geiri veltir hátt í 200 milljörðum kr. á ári. Í mínum huga er þetta gott dæmi og ágætur vitnisburður um árangurinn sem unnt er að ná ef stjórnvöld skapa skilyrði til þess og fyrir því að frumkvæði einstaklinga og fyrirtækja fái að njóta sín. Ég fullyrði að á þessu sviði liggja mörg ónýtt tækifæri. Það á einnig við um önnur svið íslensks atvinnulífs. Ég nefni sem dæmi framleiðslugreinarnar sem standa undir megninu af útflutningstekjum þjóðarinnar. Þar er fullt af vannýttum tækifærum en þau fást ekki nýtt vegna þess að stjórnvöld hafa hingað til ekki sýnt vilja til þess að vinna með þeim sem vilja og geta lagt lóð sitt á vogarskálarnar með það að markmiði að íslenskt mannlíf og efnahagur rísi á nýjan leik á þeim forsendum sem fólk vill vinna. Þvert á móti setja menn stein í götu þess eða halda aftur af vilja manna til fjárfestinga. Gleggsta dæmið í þessum efnum er málið sem hefur verið rætt hér í áraraðir, fiskveiðistjórnarkerfið. Afkoma þessara greina er með ágætum í dag. (SER: Sjávarútvegurinn skuldar 500 milljarða.) Engu að síður er fjárfesting þar í lágmarki þó svo það sé full þörf fyrir hana. Af hverju skyldi það vera? Jú, vegna þess að menn hafa ekki enn þá náð pólitískri niðurstöðu með hvaða hætti fara á með samstöðu í svokallaðri sáttanefnd um stjórn fiskveiða. Af hverju í ósköpunum er þessu haldið í heljargreipum? Hvernig skyldi standa á því? Getur einhver hér inni mótmælt því að þetta standi í vegi fyrir því að atvinnugreinin fjárfesti með þeim hætti sem kostur er á? Hvers vegna skyldu menn leggja út í áhættufjárfestingar meðan þeir vita ekki hvað bíður þeirra?

Hér er nefnt að sjávarútvegurinn skuldi 500 milljarða kr. Það kann vel að vera, ég hef ekki nákvæma tölu á því, en ég held að það sé nær 400 milljörðum kr. Það er auðvelt að hlaupa til um 100 milljarða kr. Stóru tölurnar, eins og ég hef áður nefnt, vigta oft þyngra en þær smáu. Segjum sem svo að íslenskur sjávarútvegur skuldi 400 milljarða kr. Ég fullyrði að sú atvinnugrein ræður mjög vel við að greiða það sem við skuldum. Þetta er sennilega innan við 5% af heildarskuldum íslensks atvinnulífs í dag. Hún er ekki í neinum vandræðum með þetta, ekki nokkrum. Það er engin afsökun fyrir því að standa í vegi fyrir því að atvinnugrein sem þessi taki til fjárfestinga með því að segja að hún skuldi þetta mikið. Það er fullt af fyrirtækjum þarna úti sem getur fjárfest og við eigum að heimila þeim það.

En meginatriðið er þetta: Það hefur legið fyrir í a.m.k. tvö ár að það þarf að ráðast í mikla uppstokkun á ríkisrekstrinum. Að mínu mati eykur það erfiðleikana við útfærslu verkefnisins að það liggur hvorki fyrir stefna af hálfu stjórnvalda, álit né mat á áhrifum tillagna fjárlagafrumvarpsins á aðra þætti í starfsemi ríkisins, sveitarfélaga, né á mannlíf og atvinnulíf í landinu. Það liggur hins vegar í loftinu ótti þeirra sem að koma að lægri fjárveitingar til ýmissa málaflokka muni veikja til muna grunngerð samfélagsins sem stjórnvöld og atvinnulíf hafa byggt upp á undanförnum árum. Það þarf ekkert endilega að vera samhengi á milli þess að auka útgjöld til málaflokka og fá betri þjónustu. Það þarf ekkert að vera. Ef við ætlum að vinna með öðrum hætti en gert er verðum við að sýna fólki fram á að það sé hægt. Við verðum að fá fólk í lið með okkur til þess að taka á í þessum efnum. Nei, það er ekki gert. Menn halda áfram með sama verklag, skatta sig áfram og skera niður.

Við höfum eins og ég gat um áðan, sjálfstæðismenn á Alþingi, lagt fram í þrígang á síðastliðnum tveimur árum tillögur til endurreisnar efnahagslífsins, nú síðast í nóvember síðastliðnum. Tillögurnar sem við lögðum fram í nóvember miða að því að stuðla að sátt við heimilin, verja velferð með ábyrgum ríkisfjármálum, efla atvinnulífið og fjölga störfum. Í efnahagstillögum okkar er lagt til að skattahækkanir ríkisstjórnarinnar verði dregnar til baka að fullu á næstu tveimur árum og ráðist verði í aðgerðir til að efla og styrkja íslenskt atvinnulíf. Hvað svo sem veldur því virðist ekki vera vilji til að ræða þær tillögur sem við höfum lagt fram, í það minnsta hefur engin umræða farið fram á milli þingmanna sjálfstæðismanna og stjórnarliða um innihald þessara þriggja gagngeru tillagna. Eini þingmaðurinn sem hefur tekið undir með ákveðnum hætti er hv. þm. Lilja Mósesdóttir, varðandi séreignarsparnað. Sem betur fer sér maður að sumir stjórnarandstæðingar eru farnir að taka undir ýmsa þætti í tillögunum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að leggja fram og berjast fyrir. En viðbrögðin frá stjórnarliðum eru ekki til fyrirmyndar hvernig tillögurnar hafa ekki hlotið efnislega meðferð. Þegar viðbrögðin eru með þeim hætti sem raun ber vitni um efast maður um innihald orðanna og staðhæfingar sem settar eru fram á hátíðlegum stundum um að stjórnmálamenn verði að vinna saman að úrlausn vanda. Þetta er gott og gilt þegar maður segir þetta en það verður eitthvert innihald eða meining að vera á bak við orðin þegar þau eru sett fram. Þetta er farið að fara þó nokkuð í mínar fínustu taugar, er ég þó seinþreyttur maður til vandræða. Þetta ber vott um ákveðið virðingarleysi gagnvart vinnu þingmanna sem hafa lagt í þetta verk töluvert afl og töluverðan tíma.

Ég segi fullum fetum og skal standa við það hvar sem er að stjórnarliðum ber skylda til þess að eiga málefnalega rökræðu við stjórnarandstöðuna þegar hún kemur fram með svona tillögur og mótmæla einstökum tillögum með rökum frekar en biskupa þetta út af borðinu með þeim hætti og segja: Allt sem kemur frá stjórnarandstöðunni er bara bull og vitleysa. Það er ekkert þannig, það er langur vegur frá. Innan stjórnarandstöðu eru ágætir einstaklingar á ýmsum sviðum. Sömuleiðis eru ágætir einstaklingar innan stjórnarliða. Við þurfum á því að halda að nýta það besta sem innan þessara veggja er og gera okkur gott úr því til þess að koma okkur upp úr feninu sem við erum í.

Í efnahagstillögum Sjálfstæðisflokksins leggjum við ríka áherslu á að aðhald í ríkisrekstrinum sé mikilvæg forsenda áframhaldandi velferðar. Við höfum sagt að ríkisútgjöldin eiga ekki að aukast á næstu árum. Við höfum aldrei hvikað frá því sem sett var fram í samstarfsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og íslenskra stjórnvalda haustið 2008 um að hallalaus ríkissjóður og heildarfrumjöfnuður á að nást á árinu 2013. Þrátt fyrir þetta höfum við í tillögum okkar sett þá skýlausu kröfu fram að við viljum standa við að réttur landsmanna til grunnþjónustu í heimabyggð, heilbrigðisþjónustu, löggæslu og menntunar sé tryggður.

Í efnahagstillögum okkar eru fjölmargar aðgerðir til að bæta rekstur ríkisins, en þær tryggja jafnframt velferð. M.a. er lagt til á meðan yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um ábyrgð á innstæðum í fjármálafyrirtækjum er í gildi verði tekið sérstakt gjald, 0,25%, af stofni allra innstæðna í bönkunum. Við ítrekum í þessum tillögum fyrri tillögur okkar sem við höfum frumkvæðið að að skattleggja inngreiðslur séreignarsparnaðar. Það ber hins vegar að undirstrika að okkar skoðun er afdráttarlaust sú að forsendur tillögugerðar um skattlagningu séreignarsparnaðarins eru að hvergi verði hvikað frá áformum um að ná heildarjöfnuði í ríkisfjármálum á árinu 2013. Með öðrum orðum, við erum ekki talsmenn þess og munum ekki ljá máls á því að skatturinn sem ríkissjóðurinn á í séreignarsparnað verði nýttur til þess að forða niðurskurði eða lækka ríkisútgjöld. Við tölum ekki fyrir því.

Í efnahagstillögum okkar leggjum við áherslu á að forðast flatan niðurskurð á háskólastiginu. Byggja þess í stað á stærri og sterkari einingum. Við viljum í heilbrigðiskerfinu skapa svigrúm fyrir starfsemi einkaaðila, auka það og byggja í auknum mæli á samkeppni um þá þjónustu sem leita þarf. Við erum talsmenn þess að endurskoða bótakerfið með það í huga að fækka fátæktargildrum og útrýma en hvetja fremur til atvinnuþátttöku. Við teljum bráðnauðsynlegt að bótakerfið verði endurskoðað til að koma í veg fyrir hugsanlega van- eða oftryggingu bótaþega.

Ég vísa enn og aftur í fylgiskjöl með nefndaráliti okkar í 1. minni hluta fjárlaganefndar. Við teljum þetta skynsamlega leið til uppbyggingar. Hún byggir á skynsemi í ríkisrekstri, aðhaldi og ráðdeild en jafnframt örvun atvinnulífsins. Ég vil leggja áherslu á að þetta er önnur leið en tillögur stjórnarandstöðunnar gera ráð fyrir. Sú leið gerir ráð fyrir að ríkissjóður seilist enn dýpra í vasa skattgreiðenda og fyrirtækja með þeim afleiðingum sem við sjáum í tekjugrein fjárlaganna að skattstofnar rýrna stöðugt.

Við höfum fengið tveggja ára reynslu af því að hærri skattar þýða ekki endilega auknar tekjur. Meiri álögur skapa ekki fleiri störf. Við sjáum framan í það á þessum tímum núna í fjárlagafrumvarpinu að svo er ekki.

Ég vil nefna það í tengslum við umræðuna um innihaldið í fjárlögunum að við horfum upp á það sem ég kalla þriðju bylgju í skattahækkunum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Fram til þessa hafa skattar verið hækkaðir um rúma 55 milljarða kr., nú horfum við á áform um 11 milljarða kr. skattlagningu til viðbótar.

Hækkanir á eignarskatti, fjármagnstekjuskatti, erfðafjárskatti, bifreiðagjaldi og kolefnisgjaldi leggja auknar álögur á heimilin, auk hækkunar á áfengis- og tóbaksgjaldi. Það eru jafnframt boðaðar hækkanir á tekjuskatti lögaðila upp í 20%. Þessi skattur var ef ég man rétt 15% þegar núverandi ríkisstjórn tók við völdum. Fjármagnstekjuskatturinn verður sömuleiðis fyrir barðinu á skattahækkunum, stefnir í að verða 18 eða 20%. Það sem er athyglisvert og umhugsunarvert fyrir okkur sem störfum í umboði almennings er að hækkanirnar fara beint út í verðlagið. Þær hækka vísitölu og hvaða afleiðingar hefur það? Skattahækkanirnar draga úr ráðstöfunarfé fólks, hækka skuldir heimila og fyrirtækja. Maður spyr sig: Hvaða réttlæti er í því að skattahækkanirnar skuli til viðbótar leiða til þess að skuldir landsmanna hækka, ofan á (Forseti hringir.) skattahækkanirnar munu skuldir heimilanna hækka?

(Forseti (ÞBack): Forseti vill spyrja hv. þingmann hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni.)

Svo háttar til, forseti, að síðastliðin tvö ár hef ég alltaf verið spurður að því undir þessum dagskrárlið hvort ég eigi langt eftir af ræðu minni. Ég bíð eftir spurningunni um það hvort ég sé orðinn svangur. Ég skal með ánægju gera hlé á ræðu minni meðan hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar fá sér snæðing. Það er mér bæði ljúft og skylt að gefa fólki kost á að nærast á þessum síðustu og verstu tímum.