139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[23:22]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það að ekki er allt ónýtt þótt eitthvað klikki en ég átti kannski ekki við það. Hv. þingmaður bað mig að nefna nokkur dæmi. Ég get nefnt nýleg dæmi eins og Menntaskólann Hraðbraut. Ég veit að forsendur fyrir þeim skóla voru góðar og margt gott hefur verið gert þar, en eftirliti með fjármununum hefur verið ábótavant. Ég get nefnt annað, RES Orkuskóla, sem er í mínum heimabæ og þrátt fyrir að ég vilji halda því verkefni áfram verð ég að horfast í augu við það að þar hefur verið fjármálaóreiða sem hefur gert það að verkum að það verkefni er í hættu. Sama mætti kannski segja um Keili, ég er ekki að ýja að því að þar hafi verið einhver fjármálaóreiða en ég held að þar vanti svolítið þá umgjörð sem gerð er krafa um hvað aðra framhaldsskóla snertir.

Það sem mér finnst hins vegar best við þessa umræðu og ég vil þakka hv. þm. Írisi Róbertsdóttur fyrir er að við ræðum hér grundvallarhugmyndir og mismuninn á Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki. Ég held að hann hafi komið mjög skýrt fram í dag. Við viljum vernda velferðarkerfið, við höfum lagt fram tillögur þess efnis. Við viljum ekki ganga þau skref sem ríkisstjórnin hefur boðað og ganga að heilbrigðisstofnunum út um allt land. Ef það er rétt sem ég heyri hér, að sjálfstæðismenn úti í sal séu sammála okkur um að það sé verið að taka óheillavænleg skref, þá reikna ég með því að þeir greiði atkvæði með breytingartillögum okkar þar sem við leggjum til að fara eigi í flatan niðurskurð þangað til búið er að ræða allar hugsanlegar leiðir um það hvernig ná megi fram hagræðingu í heilbrigðiskerfinu. Ég held að það sé skynsamlegt og heilladrjúgt að gera það og spyr hv. þingmann hvort hún sé ekki sammála mér um fara þurfi í þá úttekt.