140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Það vakti athygli mína í gær í óundirbúinni fyrirspurn þingflokksformanns framsóknarmanna til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um tolla og vörugjöld, ekki síst á landbúnaðarvörur, að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði að komið yrði til móts við athugasemdir umboðsmanns Alþingis varðandi afgreiðslu fyrri sjávarútvegsráðherra á landbúnaðarvörum og landbúnaðartollum. Það segir mér að ekki verður farið í heildarendurskoðun á tollalöggjöf og á vörugjöldum á sviði landbúnaðar og almennt varðandi viðskipti og innflutning á ýmsum vörum til landsins. Ég held að það sé kominn tími til að við förum í gagngera endurskoðun á tollalöggjöfinni á Íslandi og vörugjaldalöggjöfinni með tilliti til þess að viðskiptahættir eru allt öðruvísi en var til að mynda þegar WTO-samningurinn var samþykktur á sínum tíma sem og lágmarksinnflutningur á landbúnaðarkvótum. Ég held að það sé líka tímabært að menn átti sig á því að neyslumunstur okkar Íslendinga hefur breyst verulega sem og umhverfið sjálft.

Þetta vekst upp núna þegar Samfylkingin hefur í fyrsta sinn fjármálaráðherra landsins sem er yfirmaður tollamála. Ég hefði gjarnan viljað fá viðhorf þingmanna Samfylkingarinnar í þessum sal, eru þeir mér ekki sammála í því að taka þurfi þessi mál til gagngerrar endurskoðunar? Munu þeir ekki styðja mig meðal annars og fleiri þingmenn í því að farið verði í heildarendurskoðun á tollalöggjöfinni og vörugjaldalöggjöfinni með það í huga að taka meðal annars ríkara tillit til íslenskra neytenda en gert hefur verið fram til þessa?