144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

hagvöxtur og efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar.

[13:46]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það var býsna öfugsnúinn ráðherra sem birtist hér í ræðustól og reyndi að dreifa athyglinni frá hinum bitru staðreyndum. Það er ekki Samfylkingin sem segir að aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skuldamálum séu þensluhvetjandi, það er Seðlabankinn sem segir það. Samfylkingin hefur talað fyrir skattalækkunum. Hæstv. fjármálaráðherra kýs bara frekar að trúa forritinu sem er búið að stimpla inn í hann ofan úr Valhöll um að Samfylkingin tali aldrei fyrir skattalækkunum. Það er betra fyrir hann að opna eyrun en að halda áfram að segja vitleysuna sem er búið er að þylja ofan í hann.

Eftir stendur að allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar miða að því að létta byrðar þeirra sem mest hafa en ekki hjá þeim sem minnst hafa. Tökum barnabætur sem dæmi. Hæstv. fjármálaráðherra horfir algjörlega fram hjá því að þær byrja að skerðast við 200.000 kr. mark. Fólk á lágmarkslaunum fær ekki einu sinni fullar barnabætur. Hæstv. fjármálaráðherra er í lófa lagið að breyta því. Þær skerðast til fulls við 500.000 kr. Þetta eru ekki barnabætur, þetta eru láglaunabætur.

Hæstv. fjármálaráðherra verður að horfast í augu við það (Forseti hringir.) að hann hefur gefið mjög skakkt og afleiðingin sést (Forseti hringir.) í litlum og lélegum hagvexti.