144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:24]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv menntamálaráðherra hefur talað um að hann vilji gera framhaldsskólana að ungmennaskólum. Ef hann ætlar að gera það erum við að fara aftur til ársins 1962 og fyrr, en á sjöunda áratugnum og þeim áttunda fjölgaði framhaldsskólum um landið, fjölbrautaskólakerfið var sett upp og aðgengi að menntun batnaði víða og skólasókn jókst.

Verið er að fækka nemendum í skólunum. Það mun koma niður á námsframboði, það er bara þannig. Ef fleiri nemendur eru í skólanum er hægt að bjóða upp á fjölbreyttara nám. Það gengur þvert á þau orð sem hv. þingmaður las upp úr stefnuplaggi hæstv. ríkisstjórnar og mun draga úr fjölbreytninni bara hvað það varðar.

Þegar síðan námið verður stytt eins og áform eru uppi um verður framboðið enn fátæklegra af því að búið er að fara í þá aðgerð sem stefnt er að, þ.e. fjöldatakmarkanir á árinu 2015. Ég er reyndar mjög hlynnt því að stytta námstíma til stúdentsprófs, ég tel að það sé góð og mikilvæg aðgerð til þess að ungmenni okkar standi jafnfætis erlendum jafnöldrum sínum. En að gera þetta hvort tveggja verður til þess að taka sveigjanleikann úr framhaldsskólakerfinu og gera það mun einhæfara. Ég get ekki séð að orð af því sem hv. þingmaður las upp úr stefnuplaggi ríkisstjórnarinnar gangi eftir ef þessar tvær aðgerðir í framhaldsskólunum verða að veruleika.