144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:50]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég les þannig í þetta að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra geri ráð fyrir því að ekki verði hagnaður af sölunni, að einhver sala eigi sér stað en að það verði ekki hagnaður. Þannig skil ég það.

Hv. þingmaður nefndi rafmagnsbíla og ívilnun vegna kaupa þeirra sem fella á niður. Hugmyndin um ívilnun vegna kaupa á rafmagnsbíl var ein af 50 hugmyndum sem komu í gegnum græna hagkerfið og var einmitt sett á laggirnar á síðasta kjörtímabili. Við höfum fengið skýrslu um orkuskipti í samgöngum og Íslendingar hafa nú reynslu af orkuskiptum í húsnæði sínu þegar hitaveitan var tekin upp. Mér fyndist nær að við færum nú í samstarf við orkufyrirtækin um að byggja upp innviði fyrir rafbíla, að auka frekar ívilnanir og hvetja til þróunar í þá átt heldur en hitt.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að þessi aðgerð muni einmitt draga úr sölu rafbíla sem eru frekar dýrir nú þegar.