144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:29]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er grundvallarmisskilningur að mínu mati að í því felist einhver vanvirðing við sjálfstæði þingsins, að þingið sé með málið á sinni könnu, hafi verið að vinna það og það sé hér til 2. umr., þó að jafnframt sé óskað eftir því að ráðherrar komi og svari fyrir stefnumarkandi mál á sínu starfssviði. Í landinu situr þingbundin ríkisstjórn og það er hlutverk Alþingis að hafa eftirlit með og veita framkvæmdarvaldinu aðhald og framkvæmdarvaldinu ber skylda til að upplýsa Alþingi. Ráðherrar hafa til þess skyldu að svara fyrir mál sín á þinginu þannig að hvenær sem er, við hvaða umræðuefni sem er sem gefur tilefni til þess efnislega að ráðherra komi til að svara, er það fullgilt alveg eins við 2. umr. fjárlaga og endranær. Þegar um stefnubreytingu eða fagleg áhersluatriði er að ræða sem eru í höndum framkvæmdavaldsins, hvort sem varðar Ríkisútvarpið eða meðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, er fjárveitingin til þeirra málefna eitt en stefnan, (Forseti hringir.) pólitíkin, annað og það er um það sem við viljum gjarnan geta spurt ráðherrana til viðbótar því — sem að sjálfsögðu gleður okkur — að formaður fjárlaganefndar sé til staðar til að svara fyrir (Forseti hringir.) um afgreiðslu fjárlaganefndarinnar sem slíkrar á viðkomandi málum.