146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

endurgreiðsla á virðisaukaskatti til ferðamanna.

239. mál
[17:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ástu Guðrúnu Helgadóttur fyrir fyrirspurnina. Það hefur lengi tíðkast að endurgreiða virðisaukaskatt af vörukaupum erlendra ferðamanna til samræmis við þá meginreglu að útflutningur skuli ekki bera virðisaukaskatt. Ég vil taka fram að þeim tölum sem ég hef fengið frá ráðuneytinu ber ekki fyllilega saman við tölur hv. þingmanns, en þó skiptir það ekki máli í neinum meginatriðum.

Samkvæmt þeim tölum sem ég hef endurgreiddi tollstjóri á árinu 2016 rúmlega 1,6 milljarða kr., af þeim fóru 515 milljónir í umsýslukostnað hjá endurgreiðslufyrirtækjum en afgangurinn, u.þ.b. 1 milljarður, fór til baka til ferðamannanna. Spár samkvæmt því gera ráð fyrir því að endurgreiðslan muni nema 1,8 milljörðum í ár, þar af munu tæplega 600 milljónir fara í kostnað til endurgreiðslufyrirtækjanna.

Ekki er hægt að fá endurgreiddan virðisaukaskatt fyrir vörukaup fyrir lægri fjárhæð en 6 þús. kr., en þá nemur endurgreiðslan 850 kr. af þeirri fjárhæð. Upphæð endurgreiðslunnar eða öllu heldur lágmark endurgreiðslunnar er sett með reglugerð. Ferðamenn fá ekki endurgreiddan allan virðisaukaskattinn og fer mismunurinn í umsýslukostnað einkafyrirtækja og í seinni tíð þóknanir til verslana.

Hv. þingmaður spyr um afstöðu mína til endurgreiðslu virðisaukaskatts til ferðamanna. Ég er þeirrar skoðunar að draga megi úr endurgreiðslu virðisaukaskatts. Til umræðu hefur verið m.a. í fjármála- og efnahagsráðuneytinu að hækka lágmarksfjárhæðir. Sem dæmi hefur verið nefnt að vörukaup þyrftu að lágmarki að nema 15 þús. kr. sem skila sér í u.þ.b. 2 þús. kr. endurgreiðslu. Ég hef verið jákvæður gagnvart slíkum hugmyndum. Þetta mun hafa það í för með sér að örtröð sem myndast í flugstöðinni í Keflavík minnkar, það auðveldar ríkinu að hækka endurgreiðsluhlutföll ferðamannanna sjálfra og síðast en ekki síst mun það minnka heildarfjárhæð endurgreiðslunnar. Fyrstu útreikningar gera ráð fyrir að slík breyting lækki endurgreiðslur um tæplega þriðjung, eða 25–30%, eða yfir 400 millj. kr. miðað við þau umsvif sem ég las upp á árinu 2016.

Þingmaðurinn spyr einnig hvort ráðherra telji nauðsynlegt að bjóða upp á endurgreiðsluna. Mín skoðun er sú að endurgreiðsla sé ekki nauðsynleg, hún er ekki grundvölluð á alþjóðlegum samningum eða skuldbindingum. Með góðum rökum má segja að endurgreiðslan sé ívilnun fyrir einstakan geira viðskiptalífsins, þ.e. smásölu til ferðamanna. Mjög góð rök þurfa að standa til þess að ríkið ívilni greinum á þennan hátt. Þeir tæplega 2 milljarðar sem að óbreyttu fara í endurgreiðslur í ár gætu, eins og hv. þingmaður bendir á, nýst vel í ríkisrekstrinum eða til niðurgreiðslu skulda ríkisins.

Þess ber þó auðvitað að geta að væntanlega virkar endurgreiðslan sem hvatning til kaupenda til viðskipta og þau gætu því orðið minni eftir því sem endurgreiðslan er lægri.

Það er í öllu falli eðlilegt að endurskoða bæði lágmarksfjárhæð til hækkunar og endurgreiðsluhlutfall til hækkunar svo að stærri hluti fari þá til ferðamannanna sjálfra. Kerfi þar sem þriðjungur endurgreiðslunnar fer í kostnað við umsýslu er sennilega of bólgið.