148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[17:15]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Ég held að við séum á stað í umræðunni sem við förum sjaldan inn á. Ef ég man rétt var það hv. þingmaður sjálfur sem kom inn á það í ræðu sinni að menn ættu að leyfa börnum og unglingum að vera einmitt það í samræmi við núverandi regluverk og ekki vera að tína út einhver ein tiltekin réttindi, ef ég skildi hv. þingmann rétt hér áðan.

Hvað þennan hóp varðar sem ég veit að honum, og sem betur fer ýmsum öðrum en ekki nógu mörgum, er umhugað um, telur hv. þingmaður að það sé sókn í þessi réttindi? Hann nefndi áðan topp 10. Er þetta einhvers staðar á lista hjá þeim hópum sem hann þekkir best og brennur mest fyrir hvað hagsmunagæslu varðar á þingi?