148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[17:39]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður ætti að taka því sem hrósi að vera spurður út í þetta. Ég held að það sé vegna þess að ræða hennar bar af og sýndi ekki þessi merki sem maður sér stundum. Ég segi enn og aftur að ég hef margsinnis tekið þátt í málþófi og hef varið réttinn til þess að gera það og jafnvel nauðsyn þess. En ég geri það ekki að gamni mínu, ég geri það ekki nema ég hafi einhver prinsipp á bak við það. Í ræðu hv. þingmanns heyrir maður að þetta er fyrsta ræðan, maður heyrir að hv. þingmaður er bara að koma skoðunum sínum á framfæri. En það sem maður hefur heyrt mikið hér í dag eru sömu punktarnir aftur og aftur og einhvern veginn innleiddir inn í öll andsvör og þess háttar. Það þykir mér miður með hliðsjón af því að það eru afleiðingar af því að gera þetta núna.

Ég heyrði einu sinni eitthvað sem mér finnst mjög gott, þ.e. að við ráðum því algjörlega hvað við gerum, en við ráðum því ekki hverjar afleiðingar gjörða okkar verða. Hv. þingmaður hefur áhyggjur af því, og ég tel það vera málefnalegar áhyggjur, að ekki sé nægur tími til stefnu fyrir framkvæmdarvaldið til að búa um svona kosningar. Ég er ósammála hv. þingmanni, en ég tel það málefnaleg rök.

Ef þessi umræða klárast ekki á næstu tveimur klukkutímunum eða svo þýðir það að tvær vikur fara af þessu máli. Það þýðir að atkvæði verða greidd eftir tvær vikur. 3. umr. er þess eðlis að ekki er hægt að tala endalaust, þannig að henni mun ljúka, það verða greidd atkvæði. Ég hygg, miðað við atkvæðagreiðslu gærdagsins, að málið verði samþykkt, en þá er minni tími til stefnu fyrir framkvæmdaraðila til að gera það sem þarf að gera. Það eru afleiðingarnar af þessu. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi ekki áhyggjur af því með hliðsjón af rökunum sem hún færði fram.