149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

ráðstafanir vegna biðlista eftir aðgerðum.

353. mál
[17:19]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Brjánssyni fyrir að vekja máls á biðlistum. Það hefur lengi verið verkefni heilbrigðiskerfisins að reyna að vinna niður þá lista og í því sambandi er, eins og hæstv. ráðherra kom inn á áðan, mikið fagnaðarefni að við skulum vera varanlega búin að tryggja það fjármagn sem þarf til að viðhalda því sem hefur verið kallað biðlistaverkefnið.

En eins og hæstv. ráðherra kom einnig inn á er líka mjög mikilvægt að við tryggjum að þeir biðlistar sem við erum með í gangi endurspegli í rauninni raunveruleikann, þ.e. endurspegli í rauninni hvað fólk þarf að bíða lengi. Þá er að mínu viti algerlega óboðlegt að biðlisti eftir að komast á biðlistann sé einhver annar raunveruleiki en kannski hinn eiginlegi biðlisti sjálfur.

Ég vil þess vegna hvetja hæstv. ráðherra sérstaklega til að beita sér fyrir því gagnvart undirstofnunum sínum að þær vinni eitthvert verklag þannig að sjúklingur sem er í þörf fyrir tiltekna aðgerð þurfi ekki að bíða (Forseti hringir.) eftir að komast á biðlista nánast í þeim tilgangi að stytta biðlista.