149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

rafvæðing hafna.

372. mál
[17:36]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir hennar svör og hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur fyrir hennar innlegg. Það er auðvitað hægt að fagna aðgerðaáætluninni og skrefunum sem verið er að taka. Við getum deilt um hversu hratt skuli taka þau, virkja Orkusjóð o.s.frv. Það er alla vega hægt að ítreka að þetta er mikilvægt mál. Það þarf að endurskoða fyrirætlanir og fara heldur hraðar að mínu mati en við gerum ráð fyrir í dag. Það er mjög mikilvægt að það sé nægt afl til staðar í kerfinu, hvort það eru 17 MW eða 27 MW. Það er alla vega nauðsynlegt að þetta sé til ofan í annað afl sem þarf í aðgerðaáætlun og orkuskiptin. Það þarf að fara vel yfir þau mál. Eins er alveg augljóst að kostnaðurinn hleypur, þegar allt er komið, á einhverjum milljörðum króna og það þarf þá að gera ráð fyrir því í ríkisfjármálaáætlun, ekki bara næstu heldur þarnæstu líka ef við miðum við árið 2030. Ég held að við séum á réttri leið en það megi slá í klárinn og ég hvet hæstv. ráðherra til að gera allt sem í hennar valdi stendur til að svo gerist.

Ég vil enn og aftur ítreka að sumar tölur sem við höfum heyrt, að aflþörf eins skemmtiferðaskip sé 20 MW — ég fellst ekki á það. Ef við værum með þær tölur erum við að tala um 50 eða 100 MW aflþörf sem ég get ekki fallist á að sé rétt. Ég á eftir að skoða það betur.