149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

rafvæðing hafna.

372. mál
[17:38]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Það sem ég vildi bæta við áðan var að við höfum hingað til lagt mesta áherslu á orkuskipti á landi og þau eru svo sem komin vel á veg þrátt fyrir við þurfum líka að gera betur þar og vinna hraðar. Orkuskipti á hafi er brýnn málaflokkur og mikilvægur liður í að uppfylla loftslagsskuldbindingar og markmið okkar um orkuskipti. Hann er jafnframt nálægt því að vera á byrjunarreit í samanburði við orkuskipti á landi ef horft er til hlutfalls endurnýjanlegrar orku sem notuð er um borð í skipum. Auðvitað má segja á móti að við erum að tala um mjög marga bíla en mun færri skip þannig að þetta er allt önnur nálgun á verkefnið og hægt að ná miklum árangri með kannski ekki svo mörgum skipum.

Skýrslan sem ég vitnaði til áðan verður birt á morgun og þar eru ýmsar góðar upplýsingar og mjög gagnleg vinna og svo höldum við áfram og tökum næstu skref. Líkt og hv. þingmaður kom inn á þegar hann nefndi að kostnaður væri töluverður þá er sá þáttur, þ.e. fjármögnun framkvæmda og búnaður, lykilatriði í þessu verkefni en tæknin ein og sér er ekki hindrun hér, heldur frekar að stilla saman strengi, finna til fjármagn. Menn telja mikilvægt til að komast áfram í þessu að það komi til styrkir úr opinberum sjóðum. Þá finnst mér líka mikilvægt að horfa til þess hver ávinningurinn er með hverri og einni aðgerð þannig að það fari saman í hvað er verið að setja opinbert fé og hvar við náum sem mestum árangri í þessu verkefni. Að sjálfsögðu hljótum við að hafa metnað til þess að gera vel í þessu og þetta ætti í raun að vera partur af ímynd okkar, hvort sem er í sjávarútvegsmálum eða ferðaþjónustu.