149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

áfangastaðaáætlanir fyrir landshlutana.

406. mál
[17:44]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Ég er sammála hv. þingmanni í því að hér er um að ræða ótrúlega mikilvægt verkefni. Í raun er þetta eitt kostnaðarsamasta verkefni sem unnið hefur verið fyrir ferðaþjónustuna innan stjórnsýslunnar og voru töluverðir fjármunir lagðir í það og algert lykilatriði að því sé fylgt almennilega úr hlaði og fundinn góður farvegur fyrir það úti um allt vegna þess að hér eru t.d. sveitarfélög lykilatriði.

Hv. þingmaður nefndi hérna að tengja áætlanirnar við sóknaráætlanir og aðrar áætlanir, stefnumótun, deiliskipulag, svæðisskipulag, landsáætlun o.s.frv. Ferðamálastofa hefur gert samninga til þriggja ára við Markaðsstofu landshlutanna um stöðugildi til að fylgja eftir áfangastaðaáætlunum á hverju svæði og um er að ræða hálf og heil stöðugildi eftir stærð svæða. Verkefnin eru einkum að fylgja eftir framgangi forgangsverkefna áfangastaðaáætlunar í viðkomandi landshluta með aðkomu að samstarfsverkefnum á sviði uppbyggingar, nýsköpunar og vöruþróunar í samræmi við áætlanir innan svæðisins í samvinnu við hagaðila. Síðan er samþætting, samstarf og samtal vegna annarra áætlana á svæðinu og þá kemur inn á það sem ég nefndi áðan; landsáætlun, svæðis- og deiliskipulag, Vegagerðina, Umhverfisstofnun, þjóðgarða og fleira. Ef þessar áætlanir standa einar og sér og tala ekki við allar hinar og taka ekki tillit til ákvarðana um hvernig eigi að nýta fjármuni, hvort sem þeir eru ríkisins eða sveitarfélaga, þá eru þetta ekkert annað en bara áætlanir og skýrslur en munu ekki verða að veruleika. Þetta er því algert lykilatriði. Árlegt stöðumat á framgangi þeirra tillagna sem settar eru fram er líka hluti af verkefnum markaðsstofanna, þátttaka í samráðsvettvangi á landsvísu um framgang áfangastaðaáætlana og vinna að endurskoðun áfangastaðaáætlunar svæðisins í samstarfshópi um þær á landsvísu sem Ferðamálastofa heldur utan um.

Ferðamálastofa hefur sömuleiðis gert samning við flestar markaðsstofur um einstök verkefni sem koma fram í áfangastaðaáætlunum. Ferðamálastofa hefur nú þegar ráðstafað rúmlega 106 millj. kr. til þessara verkefna á næstu þremur árum en þessi upphæð mun hækka um allt að 18 millj. kr. miðað við núverandi áætlanir. Þá sinnir verkefnastjóri hjá Ferðamálastofu einnig eftirfylgni við áfangastaðaáætlanir og hlutverk hans er m.a. að sinna fræðslu og upplýsingagjöf um framgang áfangastaðaáætlana. Þetta skiptir miklu máli, þeir sem hafa verið að vinna þessa vinnu vita auðvitað allir og eru upplýstir um það sem gert hefur verið en það skiptir miklu máli að það sé fræðsla og upplýsingagjöf til allra er málið varðar þannig að þetta fari allt að tala saman til framtíðar. Þetta snýst einnig um að eiga virkt samtal við hagsmunaaðila um framgang áætlananna, taka reglulega saman upplýsingar um gang mála á landsvísu, koma með tillögur um umbætur og framhald verkefnisins og halda utan um samstarfshóp um áætlanirnar á landsvísu.

Ferðamálastofa hefur síðan það hlutverk að ýta á og fylgja eftir við opinberar stofnanir og sveitarfélög að þau verkefni sem nefnd eru í áfangastaðaáætlunum fái framgang og einnig að aðrar áætlanir taki mið af áfangastaðaáætlun, svo sem landsáætlun um uppbyggingu innviða. Þá horfir Framkvæmdasjóður ferðamannastaða til áfangastaðaáætlana þegar umsóknir eru metnar. Þetta er nýmæli í rauninni og var ekki raunhæft að gera það fyrr en þær væru tilbúnar. Nú eru þær komnar fram og þá er eðlilegt að samkeppnissjóður á vegum hins opinbera taki mið af þessum áfangastaðaáætlunum. Auk þessa hefur 30 millj. kr. úr stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024 verið ráðstafað til kynningar og innleiðingar áfangastaðaáætlana fyrir árin 2018 og 2019.

Ég hef trú á þessu verkefni og ég tek undir hugleiðingar hv. þingmanns um hvernig markaðsstofurnar geta þróast. Það sem er auðvitað jákvætt við þær er að þetta er grasrótarstarf að uppleggi og það eru mikil tækifæri í þeim og starfseminni þar og tengingu við íbúa, sveitarstjórnir, fyrirtæki á svæðinu o.s.frv. Við þurfum þá líka að horfa til þess hvernig þær eigi að þróast og hvernig þær geti með bestum hætti tekið við nýjum og stærri verkefnum. Þær eru mjög ólíkt samansettar og ólíkar innbyrðis, sem er auðvitað af því að þær eru sjálfsprottnar. Það þarf líka að hugsa það hvernig stoðkerfið í kringum þær þróast þegar þær fara að taka við stærri verkefnum, hvort sem það er ríkisvaldið sem gerir samning um slíkt eða hvað annað. Grunnurinn er þarna. Ég held að þessar áfangastaðaáætlanir verði til framtíðar lykilatriði í þróun hvers svæðis fyrir sig þegar kemur að ferðaþjónustu.