150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

ræktun iðnaðarhamps.

[10:31]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Enn og aftur þarf ég að benda á tilvik þar sem hægri hönd ríkisstjórnarinnar hefur ekki hugmynd um hvað sú vinstri er að gera, eða reyndar þar sem vinstri höndin virðist hreinlega vera á móti því sem sú hægri er að gera. Í Gautavík í Berufirði hófst í sumar tilraunaræktun á iðnaðarhampi. Var það gert eftir að leyfi hafði fengist til þess hjá Matvælastofnun með tilheyrandi vottorðum, umsóknareyðublöðum og tollafgreiðslu. Hófst svo ræktun 1. júní sl. Fljótlega eftir að ræktunin hófst byrjaði mikil umfjöllun um hana enda ekkert leyndarmál og hjónin í Gautavík opnuðu dyr sínar fyrir fjölmiðlum. Hæstv. iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fjallaði meira að segja um þessar tilraunir hér í pontu fyrir tveimur mánuðum. Umfjöllunin var undantekningarlaust jákvæð, enda er iðnaðarhampur gríðarlega nytsamleg vara sem gæti hæglega létt bændum lífið um allt land á komandi misserum.

Jákvæðnin náði þó ekki inn á borð til Lyfjastofnunar sem sendi lögreglunni á Austurlandi erindi þess efnis að í Gautavík færi fram ræktun á ólöglegum plöntum. Lögreglan mætti á svæðið en gerði þó ekkert nema safna gögnum að svo stöddu enda öll tilskilin leyfi til staðar. Haft var samband við heilbrigðisráðuneytið til að ná fundi með heilbrigðisráðherra en því var neitað, skilst mér, og vísað til fyrirhugaðra viðræðna milli heilbrigðisráðuneytis og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hvernig standa þessar viðræður og hvað hefur ráðherra gert til að einfalda regluverkið og liðka fyrir ræktun á iðnaðarhampi eins og hún sagðist ætla að gera? Og hvenær má búast við því að hætt verði að siga lögreglunni á frumkvöðla í landbúnaði?