150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[11:47]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að byrja með er ég alveg hjartanlega sammála því að við ættum að breyta frumvarpinu eins og það lítur út. Ég vil hins vegar gera það vel því að það er dálítið viðamikið. Það eru breytingar á þó nokkuð mörgum stöðum og maður sér ekki samhengið nema maður fari inn í lögin, skipti út og reyni að sjá í samhengi hvort eitthvað vanti, hvort einhvers staðar séu hliðarverkanir sem maður sér ekki svo auðveldlega í frumvarpinu sjálfu. Greinargerðin bendir ekki endilega til annars en að allt sé í lagi en við höfum alveg lent í því að vísað hafi verið í ranga grein hér og þar og það kostaði ríkið nýlega 5 milljarða kr. Lykilatriði í þessu ferli er að við erum að tala um 3,5 milljarða á ári, 7 á tveimur árum, 14 á fjórum árum, 28 á átta árum. Þær fjárheimildir sem eru að baki lagabreytingunni telja gríðarlega hratt upp án þess að við höfum hugmynd um hvað við erum að fá og í rauninni án þess að þingið veiti þessa fjárheimild. Það veldur mér hugarangri vegna fjárheimildagreinar stjórnarskrárinnar ef við eigum að vera fjárveitingavaldið. Við erum með fjárveitingavald og löggjafarvald en í þessu máli rúllar framkvæmdarvaldið yfir bæði löggjafarhlutann og fjárheimildahlutann. Þetta er alveg magnað mál að því leytinu til.

Mér finnst mjög nauðsynlegt að benda á þetta vandamál tengt nákvæmlega þessu máli í samhengi við það með hversu stuttum fyrirvara það kemur til þingsins og að það eigi að keyra það í gegnum nefndina fyrir áramót (Forseti hringir.) sem er langt frá því að vera sá umsagnarfrestur og allt sem þarf samkvæmt þingsköpum. Þetta mál er dálítið prófmál að vissu leyti í því hvernig það brýtur gegn löggjafarvaldinu, fjárveitingavaldinu og svo þingsköpum.