150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[13:35]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað upp í annað sinn og mig langar að fara beint í efni þessa frumvarps. Eins og fram hefur komið er það ekki langt eða flókið, enda lærðum við það hér í gær að það er búið að vinna mjög lengi að því að búa til frekari og skýrari ramma í kringum þjóðkirkjuna. Þetta virðist vera afrakstur hluta þeirrar vinnu, sýnist mér. Það hefur komið fram að ákveðinn samningur var undirritaður í byrjun september sl. sem snýr að kirkjujörðum og launagreiðslum presta, þetta er einföldun og jafnvel verið að skerpa svolítið á tækniatriðum. En ég vil líka segja það enn og aftur að það er svolítið vont hvað málið kemur seint fram og í rauninni slæmt líka hversu hratt við eigum að ljúka umfjöllun um það. Það eru sjálfsagt margir sem vilja koma fyrir þá nefnd sem mun fara með málið og einnig hafa tækifæri til að senda okkur ítarlegar upplýsingar í formi umsagna. Það væri mjög þakkarvert ef við gætum fengið þann tíma sem þarf til þess að fara í gegnum þá vinnu.

Það er alveg ljóst að nauðsynlegt er að fara í þessa lagasetningu, það er ekki neinn vafi í mínum huga um það. Við erum hér stödd í svokallaðri 1. umr. málsins, við erum í fyrstu skrefum að þreifa á því hvað allt þetta merki. Í mínum huga er það nú oft þannig að í 1. umr. byrjar maður að setja sig inn í málin. Síðan fer málið til nefndar og þar gefst tími til að taka á móti gestum og ræða umsagnir og málið fer svo til 2. umr. Það er rétt sem hér hefur komið fram að starfsmenn þjóðkirkjunnar verða ekki lengur opinberir starfsmenn heldur verða þeir starfsmenn kirkjunnar sjálfrar. Ég tel það mjög til bóta og er eiginlega sannfærð um að prestar og starfsmenn kirkjunnar eru sáttir við að fara þá leið, enda sé ég að þeir hafa verið hafðir með í ráðum. Ef það er rétt sem hér var sagt í gær að þessi vinna hafi átt sér stað í allmörg ár eykur það traust mitt á því að það sem hér liggur fyrir sé vel unnið. Hér hafa hv. þingmenn farið í gegnum það að verið er að breyta orðalagi. Í stað þess að tala um embættismenn verða þeir starfsmenn þjóðkirkjunnar og það er sjálfsagt í réttum anda nútímans að nota það orðalag frekar. Annað sem er gott er að þetta er í fullu samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar og ég vona svo sannarlega að við förum ekki að hrófla við ákvæðinu sem er í stjórnarskránni.

Það hefur líka komið fram að það séu ýmsir tekjustofnar utan við það sem felst í svokölluðum sóknargjöldum sem fólk þarf að greiða, nýti það sér þjónustu kirkjunnar, t.d. við skírnir og fermingar og annað slíkt. Það er sjálfsagt að taka til umfjöllunar hvort það eigi rétt á sér í þeim skrefum sem við virðumst vera að taka hér, hvort það eigi að skýra þetta allt saman mun betur. Og ég er svolítið á því að það mætti jafnvel taka umræðu um það, sérstaklega þar sem við erum að stórauka fjárhagslegt sjálfstæði þjóðkirkjunnar. Þá væri jafnvel gott og til gagns að taka þá umræðu hvernig við ætlum síðan að halda áfram.

Það er eitt sem við höfum ekki rætt hér sem er sálgæsla. Að mínu viti er hún ekki felld undir einhverja sérgjaldaliði. — Nú sé ég að tíminn er búinn þannig að þetta verður að duga.