150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[14:21]
Horfa

Þorgrímur Sigmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það segir meira en mörg orð að einmitt þegar ég upplifði það í pontu í skoðanaskiptum mínum áðan við hv. þm. Smára McCarthy og nú við hv. þm. Björn Leví að mér fannst vera að myndast einhver flötur þar sem við værum í raun sammála um að vera ósammála um ákveðna hluti, bærum virðingu fyrir því, við myndum líklega aldrei verða sammála um alla hluti í þessu. Mér fannst þetta líka að verða málefnalegra og málefnalegra, þá er svolítið súrt að akkúrat núna, þegar hillir undir að umræðan sé að verða búin, er þetta að verða virkilega „djúsí“, afsakið, herra forseti, (Gripið fram í: Innihaldsríkt.) safaríkt.

En þá kemur reyndar eitt í lokin. Ég geri mér grein fyrir því að 1907 eru bændakirkjurnar teknar yfir og þetta er gert að ríkiseign o.s.frv., en við hv. þingmaður verðum nú samt sem áður að enda á því að verða pínulítið ósammála. Ég er ekki á því og er ekki sammála því að megintilgangur þess hafi verið með beinum hætti að hækka laun presta. (Gripið fram í.) Það kann að hafa verið hluti af því, en það er ekki minn skilningur að það hafi verið megintilgangurinn og meginstefnan með þeirri aðgerð. En ég mun að sjálfsögðu líta á þetta aftur, hv. þingmaður.