150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

skráning raunverulegra eigenda.

452. mál
[14:38]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er eiginlega sammála hv. þingmanni og það kemur honum ekki á óvart vegna þess að ég held að það sé óhætt upplýsa það hér að þetta kom til tals í efnahags- og viðskiptanefnd, hvort það væri ekki skynsamlegra að miða við 1. febrúar, einmitt út af þessum ástæðum. Ég var nú frekar hlynntur því og studdi hv. þm. Smára McCarthy í þeim efnum. Vandinn sem við stóðum hins vegar frammi fyrir var að það voru varnaðarorð, m.a. frá ríkisskattstjóra og frá stjórnvöldum, um að það væri kannski fulllangt gengið. Annars vegar væri þetta of íþyngjandi, nægjanlegt væri að færa þetta fram til 1. mars, og síðan væru menn kannski ekki alveg tilbúnir til að takast á við þetta. Eitt er að setja lög og gera kröfu um að fyrir einhverja ákveðna dagsetningu eigi allir að vera búnir að uppfylla lögin, vitandi það að það verður ekki hægt, en annað er að setja síðan aðra dagsetningu, sem er kannski aðeins seinna en er hægt að ná og standa við.

Aftur þannig að það sé alveg skýrt: Ég stend ekki hér og held því fram að með samþykkt þessa frumvarps munum við komast af hinum gráa lista. Það þarf meira til en það. En þetta eru hins vegar skýr skilaboð frá hendi Alþingis Íslendinga og íslenskra stjórnvalda til FATF og til annarra landa um að við tökum málefni peningaþvættis og fjármögnun hryðjuverka mjög alvarlega og ætlum okkur að standa okkur í stykkinu. Það er það sem ég held að skipti máli og þess vegna vonast ég til þess að Alþingi afgreiði þetta fljótt og vel.