150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

skráning raunverulegra eigenda.

452. mál
[14:40]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Nú þekki ég ekki einstaklinga innan FATF persónulega og ég veit ekki hvernig þeirra starfsreglur eru. En mig grunar að þá varði ekki neitt um skýr skilaboð heldur séu þeir eingöngu að velta fyrir sér hvort við uppfyllum þessi 48 skilyrði. Ef við gerum það býst ég við að við förum af þessu gráa lista. Ég er sammála því að betra væri auðvitað að hægt væri að uppfylla skilyrðin og þá verðum við að horfa á raunveruleikann. Raunveruleikinn er sá að við erum með 30.000–40.000 fyrirtæki skráð á Íslandi og við erum með rafræna gátt, sem að vísu er kannski ekki alveg tilbúin en það er hægt að taka við skráningum í dag og skráning raunverulegra eigenda fyrir langflest af þessum fyrirtækjum ætti að taka svona fjórar, fimm mínútur. Það er meira að segja ekki þannig að þau þurfi að standa í biðröð heldur geta þau gert þetta jafnóðum og frekar hratt, þökk sé tölvutækninni. Þannig að ég sé ekki betur en að við gætum í rauninni afgreitt 99% þessara fyrirtækja fyrir hádegi á morgun ef þannig stæði á. Það að fresta fram til 1. febrúar er þokkalegur frestur, nægur tími, jafnvel fyrir þessi örfáu fyrirtæki þar sem það er raunverulega flókið að tína til hverjir séu raunverulegir eigendur. Þau fyrirtæki eru meira að segja kannski akkúrat þau sem þetta fjallar mest um.

Ég segi það hér að mér finnst full ástæða til að breyta þessu. Ég mun leggja fram breytingartillögu ef aðrir gera það ekki og ég myndi helst vilja að við myndum gera það saman, tillögu um að breyta dagsetningunni í 1. febrúar þannig að við séum þá aðeins öruggari um að vera búin að uppfylla hin 48 viðmið fyrir 1. febrúar vegna þess að þetta er ekki það stórmál sem fólk vill meina. Ég skil alveg að fólk vilji fara sér hægt og ekki hafa hlutina of íþyngjandi. En við erum að tala um fjögurra, fimm mínútna (Forseti hringir.) verkefni fyrir hvert fyrirtæki á landinu, að hámarki.