150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[16:16]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil bara ítreka það sem ég var að reyna að taka fram í framsöguræðu. Við erum að þessu sinni með fjáraukalagafrumvarp sem inniheldur — miðað við þann tíma sem ég hef starfað að þessum málum í þinginu, sem er að verða alveg frá því ég var rauðhærður — minnst frávik frá gildandi fjárlögum, fæst tilefni til þeirrar rýni sem hv. þingmaður nefnir hérna, hvort útgjöld séu óvænt og ófyrirséð. Ég ítreka aftur að við erum að ná betur utan um fjárstýringartæki okkar. Það má alveg gagnrýna áætlanagerð og til viðbótar því sem hv. þingmaður nefnir hér með hjálpartækin getum við nefnt breytingar á fæðingarorlofi. Það eru algerlega réttmæt sjónarmið. Við þurfum að láta finna fyrir því að við erum ekki endilega sátt við að áætlanagerðin gangi upp með þessum hætti og að við þurfum að grípa til þessara úrræða. Um óvænt og ófyrirséð, t.d. varðandi húsnæði landlæknis, þá fellur það í mínum huga algerlega í þann flokk að (Forseti hringir.) vera algerlega ófyrirséð útgjöld þegar kemur upp mygla í húsnæði.