150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[16:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og vil bara fara aftur yfir það að við þurfum að ná, eins og við rekjum í áliti meiri hluta fjárlaganefndar, betur utan um þau stýritæki sem við höfum til að mæta óvæntum útgjöldum eða nýjum útgjöldum. Í fyrsta lagi er það á heimavelli ráðherranna, með tilfærslu milli málaflokka, og síðan eftir sex mánaða uppgjörið, hvernig við nýtum varasjóði. Það sem hefur breyst á undanförnum árum, virðulegur þingmaður, er nákvæmlega þetta: Við erum að ná betri tökum á því að nota frumvarp til fjáraukalaga einungis til þeirra atriða sem eru óvænt og ófyrirséð.

Síðan ætla ég ekkert að draga fjöður yfir það, virðulegur forseti, að það má hártoga einhver atriði og rökstuðning fyrir því hvort einstaka útgjöld séu óvænt og ég kannast alveg við það. Í einhverjum tilfellum er um hrein viðbrögð að ræða vegna annarra aðstæðna, hvort sem þær eru pólitískar eða vegna samninga sem hafa verið gerðir sem verður þá að fullnusta með þessum hætti, með beitingu fjárauka. Á endanum er það nú þannig að það tekur enginn fjárveitingavaldið af Alþingi.

Ég er hins vegar og hef lengi verið talsmaður þess, virðulegur forseti, svo ég fái að koma því að, úr því að ég á 40 sekúndur eftir af mínum ræðutíma, að komi upp slík atvik á miðju ári eða einhvern tímann eftir að ár er hafið og framkvæmd fjárlaga er hafin, sé frekar flutt frumvarp til breytingar á gildandi fjárlögum en að fara einhverja torsótta leið óvæntra útgjalda. Það gæti átt ágætlega við ef t.d. verður breyting á samsetningu ríkisstjórnar á miðju kjörtímabili, og ekki bara vegna þeirrar röksemdar heldur líka vegna einhverra þeirra aðstæðna að það þurfi að bregðast við stórum útgjöldum sem við ætlum og getum ekki látið falla undir óvænt og ófyrirséð.