150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[17:07]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Þeir þrír punktar sem ég taldi upp áðan eru nákvæmlega stóru mál ársins í því sem við erum að ræða varðandi fjáraukann, fjárlögin og fjárlög komandi árs. Þetta eru stóru málin, þessir þrír punktar sem ég minntist á.

Hv. þingmaður minnist á olíuverð í heiminum. Hvorki við í fjárlaganefnd né nokkur maður á Íslandi getur í raun spáð fyrir um olíuverð. Við tökum bara heimsspána. Við þurfum ekki að spá fyrir um hvort olía verði á 64 dollara, sem var spáð fyrir þetta ár, eða hvort hún verði á 50 eða 80 dollara. Það eru bara utanaðkomandi áhrif. Við innanbúðar í fjárlaganefnd, hvað sem hv. þingmenn halda, ráðum ekki við það. Ég er að tala um þessi stóru þrjú atriði. Ef þessi þrjú stóru atriði hefðu gengið eftir; ekki hefði orðið loðnubrestur, WOW hefði ekki fallið og kyrrsetning Max véla Icelandair ekki orðið, hugsa ég að þetta hefði gengið nokkurn veginn allt eftir eins og spáin var. (Forseti hringir.) Gjaldeyristekjur sem féllu með WOW air eru væntanlega um 80–90 milljarðar sem var spáð á þessu ári.