150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[17:25]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2019. Ég vil byrja á að þakka þær ræður sem hér hafa verið haldnar, þar á meðal framsögu hv. þingmanns og varaformanns fjárlaganefndar, Haraldar Benediktssonar, sem fór afar vel yfir álit meiri hluta í framsögu sinni. Ég hef ekki miklu við hana að bæta en vil hins vegar fá að klukka örfá atriði. Áður en ég byrja á þeim vil ég jafnframt þakka framsöguræðu hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar sem fór yfir nefndarálit minni hluta. Eins og kom fram í andsvörum eru nokkur atriði, jafnvel mörg, sem er samhljómur um og við viljum bæta verklag almennt sem lýtur að fjárlögum og fjárlagaferli og þar með talið frumvarpi til fjáraukalaga eins og það er tilgreint og skilyrt í m.a. 26. gr. laga um opinber fjármál.

Í fyrsta lagi vil ég koma inn á umfang fjáraukalaga sem er beinlínis markmið að draga úr. Frávik frumútgjalda að frátöldum óreglulegum liðum sem sótt er um í frumvarpinu er um 0,5% af heildarútgjaldaheimild fjárlaga og hefur ekki verið lægra um árabil. Á árabilinu 1998–2008 var sambærilegt meðaltal frávika í fjáraukalögum um 5% af frumútgjöldum. Segja má að aðhald hafi stóraukist á liðnum árum og ég held að það megi rekja alveg aftur til 2008, 2009, 2010, að dregið hefur úr umfanginu og aðhald hefur stuðlað að bættu verklagi hvað þetta varðar. Frávikið sem ég nefndi nam að meðaltali 1,6% árin 2009–2016 en í fyrra var hlutfallið 0,7%. Ef við skoðum þessi hlutföll má segja að markmið laga um opinber fjármál hafi verið að einhverju marki að draga úr vægi fjáraukalaga.

Í öðru lagi vil ég koma inn á hlutverk varasjóða að því marki að þeim er auðvitað ætlað að vera tæki til að draga úr þessu umfangi og réttilega dregur minni hlutinn hér fram að þar með er spurning hvernig við horfum á þessi hlutföll. Ég get alveg tekið undir það. Það eru ekki einhlítar kennitölur sem segja okkur hvort við séum að ná markmiðunum eða ekki. Við þurfum kannski að greina það betur í fjárlaganefnd en við þurfum að ná betur utan um varasjóðina og byggja þá upp. Ég vil meina að þegar við náum að byggja þá upp að fullu og nýta almenna varasjóðinn minnki umfangið. Almenni varasjóðurinn nemur 1% af útgjaldaheimildum. Ég held að það þurfi kannski bara að ýta þessu verklagi að og kenna ráðherrum og starfsfólki þeirra í ráðuneytunum að nýta þegar frá miðju ári varasjóði málaflokka eða grípa til annarra úrræða þar sem það á við í því skyni að nýta heimildir, millifæra fjárheimildir sem eru til þess fallnar og þurfa þá síður að grípa til fjáraukabeiðna. Við heyrum í umræðunni mikið um matskennd atriði sem ég vil þó meina að veiti ákveðið aðhald í þeim efnum sem eru tímabundin, ófyrirsjáanleg og óhjákvæmileg. Markmiðið sem við horfum til hlýtur að vera það að hreinlega þurfi ekki að leggja fram frumvarp til fjáraukalaga á hverju ári. Það hlýtur að vera hámarksmarkmiðið.

Í þriðja lagi vil ég koma inn á það sem hefur verið nefnt í umræðunni í tengslum við níu mánaða uppgjör. Reynsla innan ársins sýnir að þrátt fyrir það sem ég hef farið hér yfir verða ráðuneyti og forstöðumenn stöðugt að fylgjast með rekstrarstöðu og vera tilbúin að grípa til aðgerða þegar þess er þörf. Enn sem komið er eru bæði milliuppgjör, ég nefndi sex mánaða uppgjör, og þessi uppgjör almennt of seint á ferðinni til að nýtast virkilega sem tæki fyrir fjárlaganefnd. Það væri frábært að vera tímanlega á ferðinni með uppgjörið og uppfært yfirlit yfir notkun varasjóðanna. Hv. framsögumaður meiri hlutans fór ágætlega yfir þetta. Það er æskilegt að bæta úr þessu verklagi.

Ég kom aðallega upp, virðulegi forseti, til að gera grein fyrir breytingartillögu á þskj. 686 sem er lögð fram í mínu nafni. Þannig er hægt að gera grein fyrir henni þegar í 2. umr., ellegar hefðum við þurft að kalla málið inn á milli 2. og 3. umr. og fara yfir tillöguna. Mér fannst rétt að gera þetta svona og fara yfir hana strax í 2. umr. Hér er lagt til að veita 353 millj. kr. í fjárfestingarframlag til málaflokks 09.10 sem er löggæslan, m.a. til að efla lögreglu í aðgerðum hennar gegn skipulagðri brotastarfsemi. Hér er um að ræða fjárfestingar- eða útgjaldaheimild sem láðist að færa á móti óvæntum tekjum. Í tillögunni er gert ráð fyrir að hluta ávinnings sem gerður var upptækur í kjölfar sameiginlegra rannsóknaraðgerða bandarískra og íslenskra stjórnvalda í svokölluðu Silk Road máli og tekjum sem af því hlutust, en hlutur Íslands í því máli var 353 millj. kr., verði ráðstafað til að efla lögregluna, þá sérstaklega í aðgerðum hennar gegn skipulagðri brotastarfsemi. Er framlagið fyrst og fremst ætlað til búnaðarkaupa og til að efla tæknibúnað lögreglunnar í þessari baráttu gegn skipulögðum glæpum. Það er rétt að taka fram að tekjurnar eru komnar inn en það láðist að veita útgjaldaheimildina á móti þannig að hægt sé að nýta tekjurnar. Hér er því ekki eiginlega um að ræða breytingar á afkomu, annars lægju tekjurnar inni á reikningi. Forsaga málsins er sú að á árinu 2013 barst dómsmálaráðuneytinu réttarbeiðni frá bandaríska dómsmálaráðuneytinu vegna rannsóknar á markaðssvæði á internetinu með ólögleg fíkniefni og aðra ólögmæta starfsemi sem gekk undir nafninu Silk Road. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagði fram umtalsverða aðstoð í málinu og að endingu var umrædd síða tekin niður og umtalsvert fé gert upptækt í formi sýndargjaldmiðilsins Bitcoin. Aðstoð íslenskra löggæsluyfirvalda í fyrrnefndu máli var lykilþáttur í að uppræta starfsemi Silk Road og að komast að raunverulegum eiganda síðunnar. Í kjölfar réttaraðstoðarinnar kom fram að bandarísk stjórnvöld hefðu hug á að deila þeim ávinningi sem gerður var upptækur við rannsókn málsins með íslenskum stjórnvöldum, m.a. á grundvelli tveggja alþjóðasamninga á vegum Sameinuðu þjóðanna, Palermó-samningsins og samnings gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni sem Ísland og Bandaríkin eru bæði aðilar að. Sem fyrr segir liggur endanleg upphæð nú fyrir og voru íslenskum stjórnvöldum í haust greiddar þessar 353 millj. kr., þ.e. hluti þess heildarávinnings sem gerður var upptækur við rannsókn málsins. Er hann um 15%. Ríkisstjórnin hefur samþykkt að andvirði þessa ávinnings skuli ráðstafað til að efla lögregluna í aðgerðum hennar gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Eins og ég fór yfir áðan er verið að bregðast við því hér þannig að peningarnir megi nýtast, að þeim fylgi, eins og þarf að gera, útgjaldaheimild, fjárfestingarframlag.

Ég vildi gera grein fyrir tillögunni strax við 2. umr., ellegar hefðum við þurft að kalla málið inn til 3. umr. til að fara yfir hana þannig að fleiri væru á breytingartillögunni.