150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[17:45]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég er á sömu slóðum og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, að velta nákvæmlega þessu fyrir mér. Það virðist sem sagt vera að meginskýring þessara viðbótarútgjalda sé sú að fundist hafi peningur. Ég er eindreginn stuðningsmaður þess að við styðjum vel við lögregluna og raunar finnst mér út af fyrir sig vel til fundið að lögreglan njóti góðs af sögulegum árangri í rannsókn þarna og á endanum því fjármagni sem þar er gert upptækt. En ég velti þessu fyrir mér út frá ramma laga um opinber fjármál. Þetta eru ekki óvænt útgjöld sem óhjákvæmileg voru eða ekki var hægt að bregðast við með öðrum hætti, heldur er beinlínis ákveðið að stofna til þeirra af því að fjármagn fannst. Það finnst mér dálítið sérstakt ef það á almennt að geta gilt um ríkisaðila fram á veginn í lögum um opinber fjármál (Forseti hringir.) að við getum tekið nýjar ákvarðanir um útgjöld af því að mögulega hafi t.d. sértekjur orðið meiri en ráð var fyrir gert.