151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

stjórnarsamstarfið.

[15:16]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrirspurnina og nýti tækifærið til að óska sömuleiðis öllum þingmönnum gleðilegs árs. Ég gleymdi því áðan í upphafi þingfundar. Þau orð sem hv. þingmaður vísar í tengjast því máli sem hér kom upp á aðfangadagsmorgun og kennt er við Ásmundarsal og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og við það tækifæri sagði ég að svona atvik, þetta atvik, gæti haft áhrif á traust milli stjórnarflokkanna. Eðli máls samkvæmt er það bara þannig því að þetta eru viðkvæmir tímar sem við lifum á, viðkvæm staða í samfélaginu og miklar kröfur sem við erum öll að leggja hvert á annað í tengslum við sóttvarnaráðstafanir. En ég vil líka segja það að samstarf þessara flokka, eins og hv. þingmaður veit, hefur verið gott á þessu kjörtímabili. Ég sagði líka við þetta tækifæri að þó að þetta atvik ylli mér vonbrigðum og það gæti haft áhrif á þetta traust væri það líka dæmi um mál sem væri hægt að vinna úr. Þannig nálgaðist ég það verkefni, að við myndum vinna úr þessu máli sameiginlega. Hæstv. ráðherra baðst afsökunar á þessu atviki og gerði það strax og beið ekki með það og útskýrði þær aðstæður. Við höfum að sjálfsögðu rætt það síðan. Af því að hv. þingmaður spyr bara heiðarlega: Hefur þetta haft áhrif á traustið? þá hafði ég áhyggjur af því að það kynni að gerast. En ég tel að við höfum unnið vel úr því máli.