151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

stjórnarsamstarfið.

[15:18]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það gæti komið upp í manni dálítill púki og ég gæti reynt að snúa út úr þessu. En ég ætla samt að segja, af því að málin sem ég nefndi áðan eru það mikilvæg, það skiptir svo miklu máli að unnið sé vel þvert yfir flokka, að það náist ákveðin samvinna og traust í þessu mikilvæga máli þvert yfir línuna, að ég er fegin því að forsætisráðherra hefur unnið svolítið í sambandi sínu við hina stjórnarflokkana, eða réttara sagt Sjálfstæðisflokkinn. Það er mikilvægt núna þegar við erum að fara að ræða sölu á hlut í Íslandsbanka, þegar við erum að ræða miðhálendisþjóðgarð og ekki síst stjórnarskrána, að finna að það ríki ákveðið traust á milli stjórnarflokkanna. Síðan munum við sjá hvernig það traust skilar sér á endanum hingað inn í þingsal. Talað er um einhver hrossakaup. Ég ætla ekki að trúa því að svo sé heldur vil ég miklu frekar brýna ráðherra, ekki síst fyrst fullt traust ríkir á milli stjórnarflokkanna, það er gott að fá það fram, til að vanda þá til verka í þessum stóru og miklu málum; sóttvörnum, bóluefnum, miðhálendisþjóðgarði, stjórnarskrá o.fl., að brýna samstarfsflokkana þannig að við getum skilað sem bestu verki héðan úr þinginu.