151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:38]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það er eitt sem hefur angrað mig dálítið varðandi þetta mál, það er þessi tímaskortur eða tímafrestur sem er settur á Alþingi, að það eigi að klára þetta fyrir 20. janúar. Af hverju? Það fást engin sérstök svör við því. Það eru engar sérstakar skyldur sem ráðherra eða þingið hefur til að þurfa þennan uppdiktaða frest. Framkvæmdarvaldið getur ekki hent einhverju máli inn á þingið og sagt: Þið verðið að klára þetta fyrir ákveðna tímasetningu. Þingið á að sjálfsögðu bara að klára þetta ferli á eigin ábyrgð og með þeim gæðum sem þingið telur að málið þurfi. Það er ýmislegt í þessu ferli sem leyfir manni að efast um að málið sé nægilega vel undirbúið. Augljósasta dæmið er umsögn Samkeppniseftirlitsins þar sem segir einfaldlega: Það vantar greiningu á áhrifum á samkeppni í sölu á þessum hluta Íslandsbanka. Aðrir umsagnaraðilar hafa sagt að það séu aðrir möguleikar í stöðunni en að selja nauðsynlega þennan hluta Íslandsbanka á þann hátt sem lagður er til. Það væri t.d. hægt að aðskilja viðskiptabanka og fjárfestingarbanka og selja hluta af öðrum þeirra. Það væri þess vegna hægt að leysa bankann upp eða sameina við Íslandsbanka því að það er alveg rétt að ríkið hefur ekkert að gera við tvo banka. Það er fullt af öðrum mögulegum úrlausnum í staðinn fyrir að selja bankann, sem eru ekki greindar. Það er ekki rökstuðningur fyrir því að einn af þessum möguleikum sé betri en annar heldur er einungis lagt út frá einum möguleika, (Forseti hringir.) sem er ekki góð stjórnsýsla.