151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:49]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður segir: Það fer ekki á milli mála hver stefna Vinstri grænna er. Þið eruð nýbúin að samþykkja fjárlög þar sem gert er ráð fyrir heimild til að selja 30% í Landsbankanum. Sömuleiðis er ekki rétt að halda það að ríki í Evrópu eigi ekki allt að 100% í bönkum. Belgíska ríkisstjórnin á 100% í banka, breska ríkisstjórnin á 62% í banka, hollenska ríkið á 100% í einum banka og 56% í öðrum banka, írska ríkið á 70% í einum banka og 75% í öðrum, Noregur á 34% í Norges Bank, sem er stærsti banki Noregs. Það er því ekki rétt að þetta sé einhver einstök staða hér á landi og við verðum að selja banka, að við séum eina ríkið í heimi sem eigi banka. Kjarni máls í gagnrýni minni og Samfylkingarinnar er að þið standið illa að þessu. Hraðinn er ámælisverður og þetta er ekki rétti tíminn til að selja. Við fáum ekki ásættanlegt verð vegna þess að kaupendurnir eru færri og vegna þess að hér er 100 ára kreppa og það skiptir máli hverjir eiga banka. (Forseti hringir.) Þetta er ekki eins og hvert annað fyrirtæki. Það er svo augljóst hvað hér er verið að gera. (Forseti hringir.) Það er verið að einkavæða bankann rétt áður en þið verðið kosin út úr Stjórnarráðinu.