151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[20:30]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held að við þurfum líka að muna að spyrja okkur þeirrar spurningar: Á ríkið að eiga tvo þriðju af viðskiptabönkunum? Það er spurningin sem við spurðum okkur og þess vegna var farið í þetta. Það er ekki framtíðarsýn okkar að ríki eigi tvo viðskiptabanka af þremur. Hvað gerum við þá? Við þurfum að losa um eignarhaldið. Það er búið að vinna að því markvisst, eins og hv. þingmaður þekkir vel. Þess vegna er heimild fyrir því í fjárlögum að selja. En við erum líka með lög um það hvernig á að koma að þeirri sölu og í þeim lögum felst að ráðherra skuli leita umsagnar Alþingis. Er sá frestur skammur? Ég veit það ekki. Mér hefur fundist starfið, alla vega í þeirri nefnd sem ég sit í, hv. efnahags- og viðskiptanefnd, ganga mjög vel fyrir sig. Við höfum fengið góða gesti, góða greinargerð og höfum getað átt góð samskipti. Við erum búin að vera hér í allan dag og verðum væntanlega fram til miðnættis að ræða þetta mál. Ég upplifi sjálf ekki mikla tímapressu til að taka afstöðu til þess hvort það sé sniðugt núna að losa um þennan litla hluta og þá með hvaða aðferð. Ég fellst á þau rök að sú aðferð sem lögð er til hér sé gegnsæ og góð leið til að meta hvert virði bankans er og þetta sé gott fyrsta skref.

Það sem ruglar kannski umræðuna er að fólk virðist fara svolítið aftur til baka og velta því upp: Af hverju eigum við að selja? En það hefur alltaf verið markmiðið. Spurningin er bara: Er eitthvað við þann tímapunkt núna sem gerir það að verkum að við eigum að segja: Nei, nei, nei? Allt í lagi, ég skal hlusta á þau rök og við höfum fengið nokkur slík rök í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. En við höfum líka fengið þau rök að núna sé akkúrat rétti tíminn, í þessu lágvaxtaumhverfi, lífeyrissjóðirnir þurfi að losa um fjármagn, við þurfum að byggja undir hlutabréfamarkaðinn. Þetta er mjög góður tímapunktur til að losa um smáhluta af eignarhaldinu. Það eru þau rök sem ég hef fallist á og þess vegna hyggst ég taka undir þá umsögn efnahags- og viðskiptanefndar að þetta sé góður tímapunktur og við þurfum að halda áfram með þá vegferð sem hér er lagt upp með.