151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[21:05]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki rétti tíminn að selja banka í dýpstu kreppu í 100 ár. Það er ekki rétti tíminn að selja banka þegar 20% af eignasafni bankans eru í greiðslustöðvun. Það er ekki rétti tíminn að selja banka þegar við horfum á umfram eigið fé upp á yfir 42 milljarða kr. Það er mjög auðvelt að svara þessu. Það eru fjölmörg rök sem benda til þess að þetta sé einmitt ekki rétti tíminn til að selja banka, enda er engin önnur þjóð að gera það þrátt fyrir að fjölmörg önnur ríki eigi eignarhlut í bönkum. Það er ekki eitthvert séríslenskt fyrirbæri að eiga í banka. Það hlýtur að vera eðlilegt að setja spurningarmerki við tímasetninguna og hraðann. Það er okkar hlutverk í þessum sal að líta til almannahagsmuna. Ég er ekki að segja að ég sé sérfræðingur í söluráðgjöf en ég gef mig út fyrir það, alveg eins og hv. þingmaður, að vera annt um almannahagsmuni. Við hljótum að fá hærra verð fyrir hlutinn þegar óvissu er eytt. Það er bullandi óvissa í hagkerfinu í dag. Við vitum ekkert hvaða kaupendur eru hér í boði. Við vitum þó að þeir eru færri en ella því að í gögnunum sem eru fyrir framan okkur er tekið fram að að þessu sinni séu engir erlendir kaupendur líklegir. Mér hefði fundist spennandi að fá erlenda kaupendur inn í íslenskt bankaumhverfi. Við fengjum meiri samkeppni á þessum fákeppnismarkaði.

Í mínum huga getur vel komið til greina að selja Íslandsbanka seinna, en ég get samt verið á móti því núna vegna þess að aðstæðurnar eru ekki hagfelldar. Það er eitt af skilyrðunum að salan á ekki að eiga sér stað nema markaðsaðstæður séu hagfelldar og mér finnst augljóst að þær eru það ekki eins og staðan er í dag.