151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[22:24]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það eru bara mjög skiptar skoðanir um það. Það hafa vissulega heyrst raddir um að nú sé ekki góður tími til að selja banka. En það eru líka aðrir sem benda á það að nú sé mögulega einmitt mjög góður tími til þess. Ég held að við fáum ekki botn í það fyrr en við förum og látum reyna á þetta. Það er í öllu því samhengi sem ég talaði um í ræðu minni sem mér finnst skipta svo miklu máli að við höfum góðan lagaramma sem segir alveg hvernig eigi að standa að þessu. Það er ekkert furðulegt við það að ríkisstjórn og flokkar sem hana styðja haldi áfram með þær aðgerðir sem hún hefur staðið að, þegar allt í ferlinu við það er bara í góðu lagi. Og eins og ég hef margítrekað hér í kvöld og ýmsir hv. þingmenn hafa einnig gert í dag þá erum við að setja viðmið um það hvaða umgjörð þurfi að vera til staðar til þess að við förum alla leið með þessa sölu. Hingað til hef ég ekki séð neitt annað en að við séum bara á mjög góðri en að sama skapi mjög varfærinni leið. Það er að mínu mati einmitt eina rétta leiðin til að fara í þessu; að vera varfærin en halda áfram á þeirri braut sem við höfum markað.