132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Norðlingaölduveita.

[13:58]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þjórsárverin á að vernda. Þjórsárverum á að þyrma. Við eigum að nota tækifærið til að stöðva virkjanaframkvæmdir Landsvirkjunar á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Þar á virkjanastefna ríkisstjórnarinnar að stoppa. Að mínu mati á að hætta við áform um framkvæmdir við Norðlingaölduveitu. Þess í stað eigum við að stækka mörk friðlandsins þannig að sem mest af gróðurlendi svæðisins lendi innan friðlýsingarmarka, auk Þjórsár og nærliggjandi svæða að Sultartangalóni. Hagsmunir virkjana og stóriðju kalla ekki á þær ómetanlegu fórnir sem skerðing og eyðilegging Þjórsárvera hefði svo sannarlega í för með sér. Þarna er um að ræða eina af merkustu gróðurvinjum hálendisins og hana ber að vernda en ekki virkja.

Sjálfur er ég íbúi í Gnúpverja- og Skeiðahreppi og hef verið í áratugi. Ég hef fylgst grannt með baráttu heimamanna fyrir verndun veranna. Ég hef stutt þá baráttu og tekið þátt í henni. Sú barátta hefur verið heimamönnum til sóma og er við hæfi að óska þeim til hamingju með baráttuna og þann árangur sem vonandi hefur náðst. Vonandi sést til lands og vonandi verður Landsvirkjun settur stóllinn fyrir dyrnar og fallið að fullu frá áformum um Norðlingaölduveitu.

Það er komið nóg af fórnum á þessu svæði. Of miklu hefur verið fórnað nú þegar í þágu stóriðju og stórvirkjana. Það á ekki að fórna einni af dýrmætustu gróðurvin hálendisins heldur freista þess að koma verunum á heimsminjaskrá UNESCO. Skipulag svæðisins sunnan Hofsjökuls er núna á byrjunarreit. Það veitir okkur á Alþingi Íslendinga kærkomið tækifæri til að vernda til framtíðar þá miklu og verðmætu hálendisperlu.

Viðbrögð hæstv. ráðherra eru dapurleg. Málið snýst ekki um að það sé æpandi orkuskortur sem kalli á miðlun við Norðlingaöldu heldur það að vernda þessar náttúruperlur burt séð frá skammtímahagsmunum stóriðju og stórvirkjana.