132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[14:05]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 634, það er 417. mál þingsins. Frumvarpið, sem er ríkisstjórnarmál, er frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd.

Ég held að öllum sé ljóst að ríkisstjórnin stóð frammi fyrir mjög erfiðu vandamáli eftir að Kjaradómur kvað upp úrskurð sinn þann 19. desember sl. Í úrskurðinum skyldu laun forseta hækka um 6,15%, en laun annarra sem undir dóminn heyra hækka að jafnaði um 8,16% og skyldu umræddar hækkanir taka gildi 1. janúar 2006. Á sama tíma hækkuðu laun á almennum vinnumarkaði almennt um 2,5%. Hinn 27. desember 2005 ritaði forsætisráðherra bréf til Kjaradóms þar sem farið var fram á það að úrskurðurinn yrði endurskoðaður. Kjaradómur hafnaði þessu með bréfi, dags. 28. desember 2005.

Í athugasemdum við frumvarpið eru raktar ástæður þess af hverju nauðsynlegt er talið að bregðast verði við ákvörðun Kjaradóms frá 19. desember sl. og til hvaða aðgerða ríkisstjórnin hefur ákveðið að grípa. Í athugasemdunum kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Í ljósi þeirra áhrifa sem úrskurður Kjaradóms gæti haft á stöðu vinnumarkaðsmála, þar á meðal nýgert samkomulag aðila vinnumarkaðarins um kjaramál, og þeirra ófyrirsjáanlegu áhrifa sem slíkt hefði á stöðugleikann í efnahagsmálum, er nauðsynlegt að bregðast við ákvörðun Kjaradóms frá 19. desember 2005. Hefur ríkisstjórnin ákveðið annars vegar að beita sér fyrir því að úrskurði Kjaradóms verði breytt með lagasetningu, þannig að í stað þeirra hækkana sem þar voru ákveðnar komi 2,5% hækkun frá 1. febrúar 2006, eins og gert er með frumvarpi þessu. Hins vegar mun ríkisstjórnin skipa nefnd til að fara yfir núgildandi lög um Kjaradóm og kjaranefnd. […] Er nefndinni ætlað að skila tillögum svo fljótt sem auðið er. Rétt þykir að launabreytingum hjá þeim sem Kjaradómur og kjaranefnd ákvarða laun fyrir verði haldið í lágmarki meðan farið verður yfir lögin. Af þessum sökum er í frumvarpi þessu jafnframt lagt til að Kjaradómi og kjaranefnd verði tímabundið settar viðbótartakmarkanir varðandi launabreytingar.“

Sjálft frumvarpið er tvær greinar. Í 1. gr. er lagt til að við lög nr. 120 1992, um Kjaradóm og kjaranefnd, bætist ákvæði til bráðabirgða. Í 2. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um gildistöku laganna.

Fyrsta málsgrein bráðabirgðaákvæðisins er efnislega á þá leið að úrskurður Kjaradóms frá 19. desember 2005 er felldur úr gildi frá og með 1. febrúar 2006. Frá sama tíma skulu mánaðarlaun og einingar samkvæmt úrskurði Kjaradóms frá 9. júní 2005 hækka um 2,5%.

Að því er varðar laun forseta Íslands var það athugað sérstaklega hvort ákvæði 2. málsl. 2. mgr. 9. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem segir að óheimilt skuli að lækka greiðslur til forseta kjörtímabil hans kynni, að takmarka möguleika á að breyta úrskurði Kjaradóms að því leyti. Tilvitnað stjórnarskrárákvæði var nýmæli í stjórnarskránni 1944. Í skýringum við ákvæðið er það rakið að það miði að því að hindra að fjárhagslegum þvingunarúrræðum verði beitt gegn forseta. Sérstaklega er tekið fram í skýringunum að með ákvæðinu sé einungis verndaður réttur forseta til sömu krónutölu og hann hefði í upphafi haft, en engan veginn tryggt að kaupmáttur krónunnar haldist óbreyttur.

Ljóst er að með frumvarpi þessu er ekki farið gegn tilgangi stjórnarskrárákvæðisins. Nefna má að Kjaradómi var, með bráðabirgðalögum 3. júlí 1992 um breytingu á lögum um Kjaradóm, nr. 92/1986, falið að kveða upp nýjan úrskurð í stað úrskurðar síns frá 26. júní 1992. Kjaradómur kvað upp nýjan úrskurð 12. júlí 1992 í samræmi við efni bráðabirgðalaganna sem fól í sér lækkun launa frá því sem ákveðið var með fyrri úrskurði og tók hinn nýi úrskurður jafnt til forseta sem annarra sem undir fyrri úrskurð Kjaradóms féllu.

Önnur málsgrein er efnislega tvískipt en í fyrri málslið 2. mgr. er gert ráð fyrir að ekki verði um frekari breytingar á launum þeirra sem eru undir Kjaradómi og kjaranefnd að ræða á árinu 2006 nema þær séu í samræmi við umsamdar launahækkanir á almennum vinnumarkaði. Í þeim kjarasamningum er á árinu eingöngu gert ráð fyrir 2,5% hækkun launataxta sem kom til framkvæmda um nýliðin áramót nema annað leiði af niðurstöðum endurskoðunarnefndar samningsaðila á hinum almenna vinnumarkaði.

Í seinni málslið 2. mgr. er opnað fyrir Kjaradóm og kjaranefnd að taka tillit til sérstakra hópa og bregðast við breytingum sem kunna að verða á umfangi starfa eða verksviði einstakra embættismanna eða hópa embættismanna. Sem dæmi má nefna ef ákveðið er að sameina stofnanir eða fjölga eða fækka marktækt þeim verkefnum sem stofnun er ætlað að sinna. Þess skal þó gætt að slíkar breytingar valdi ekki röskun á vinnumarkaði.

Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að ríkisstjórnin hefur ákveðið að skipa nefnd til að fara yfir núgildandi lög um Kjaradóm og kjaranefnd og að sú nefnd eigi að skila tillögum svo fljótt sem auðið er. Í því ljósi er í frumvarpinu ekki lagt til að takmarka lengur en út árið 2006 þær forsendur sem Kjaradómi og kjaranefnd er ætlað að starfa eftir. Á þeim tíma má ætla að annað tveggja hafi gerst: þeim viðmiðunum sem Kjaradómi og kjaranefnd sé ætlað að fylgja í launaákvörðunum sínum hafi verið breytt eða ákveðið hafi verið að láta þær haldast óbreyttar.

Virðulegi forseti. Ég er kominn að lokum máls míns og að þessum orðum töluðum legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.