132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[16:05]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um Kjaradóm og kjaranefnd. Hér hefur verið mælt fyrir frumvarpinu og allítarleg umræða hefur farið fram í dag af hálfu þingmanna. Einnig hefur verið mikil umræða í þjóðfélaginu öllu um kjaramál, dóm Kjaradóms sem féll nú fyrir áramótin og er þá tilefni til þessarar umræðu og frumvarps sem liggur fyrir.

Þegar niðurstaða Kjaradóms varð ljós um kjör þeirra starfsmanna sem undir hann falla, þ.e. þingmanna, ráðherra og svokallaðra æðstu embættismanna þjóðarinnar, þegar sá úrskurður kom fram um hækkun á kjörum þeirra olli það mikilli umræðu og var eins og vaknað væri upp við vondan draum um hvað væri að gerast í þjóðfélaginu. Í frumvarpi þessu er lagt til að sá úrskurður eða ákvörðun Kjaradóms verði felld úr gildi og viðmiðun breytt. Dómurinn tók gildi um síðustu áramót. Í því fjargviðri sem varð þegar dómurinn var birtur fyrir jólin lögðum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til að þing yrði kvatt saman og ákvörðun tekin um eða lagt til við þingið að það gerði samþykkt sem kæmi í veg fyrir að dómurinn eða þær breytingar sem kveða á um kjör æðstu embættismanna ríkisins kæmu til framkvæmda 1. janúar.

Í stað þess að verða við þeirri eðlilegu kröfu ákvað forsætisráðherra eftir margs konar klúður eins og við þekkjum í umræðunni fyrir jólin og fyrir áramótin, að kalla Kjaradóm inn á teppið, eins og hann gæti skipað honum fyrir sem er nú orðinn háttur stjórnvalda hér, að halda að þau geti deilt og drottnað ef einhver lög eða einhver úrskurður kveður á um eitthvað sem þeim kemur á óvart að þá geti þau bara kallað viðkomandi inn á teppið og beðið hann að breyta úrskurðinum eða niðurstöðunni. Þetta eru svo sem viðbrögð hjá hæstv. forsætisráðherra Framsóknarflokksins sem koma okkur ekki á óvart en sýna kannski meira veruleikafirringuna sem stjórnvöld eru orðin haldin, að halda að þau geti bara kallað fyrir ráð og dómstóla og sagt þeim fyrir verkum. Það er einmitt þessi veruleikafirring sem mér finnst vera kannski einn alvarlegasti þátturinn í þessari umræðu allri, þ.e. veruleikafirring stjórnvalda og ráðherranna, sérstaklega forsætisráðherra.

Yfirlýsingar forsætisráðherra voru um að þetta hefði komið honum ofboðslega mikið á óvart, að þessi hækkun, þessi breyting sem Kjaradómur lagði til hefði komið honum mikið á óvart. En Kjaradómur var einungis, eins og hann ítrekaði síðan í áliti sínu og sérstakri greinargerð, að fara eftir þeim lögum og þeim viðmiðunum sem honum voru sett við ákvörðun á kjörum umræddra starfsmanna og tók þá viðmið af fólki í samfélaginu sem þeim hafði verið uppálagt að taka mið af við breytingar á kjörum.

Þjóðin öll hefur fylgst með þeim gríðarlegu launahækkunum, kjarahækkunum sem einstakir þjóðfélagshópar annað hvort eru að fá eða eru að skammta sér á undanförnum árum, sérstaklega núna á síðustu missirum. Ég er með dæmi hérna, af því að í dagblaði í gær var minnst á hvernig stjórnendur íslenskra bankastofnana hafa skammtað sér með einum eða öðrum hætti eða fengið launa- og kjarahækkanir í svo svimandi upphæðum að fæst okkar geta einu sinni hugsað í þeim tölum, að fólk sé að fá milljónir króna á dag í kjarabætur. Þessi mikla breyting sem hefur orðið í samfélaginu á síðustu missirum, gliðnunin sem er orðin á kjörum þeirra sem eru með hæstu tekjurnar og hinna sem eru með lægri tekjur, við sjáum hana öll, en hæstv. forsætisráðherra sér hana ekki og kom þetta óskaplega mikið á óvart. Mér finnst það kannski vera, frú forseti, einn alvarlegasti þátturinn í þessu máli, þ.e. veruleikafirring forsætisráðherra að halda síðan að hann geti kallað dóm eins og Kjaradóm fyrir sig og skipað honum að breyta niðurstöðu. Nei, það eru forsendurnar í samfélaginu sem speglast í þessum úrskurði og á því hefði forsætisráðherra átt að átta sig en ekki að taka Kjaradóm og fara að leysa niður um hann og skipa honum að koma með einhvern annan úrskurð en honum var mögulegt að gera samkvæmt þeim lögum sem hann starfar eftir.

Það var því afar óskynsamlegt af forsætisráðherra og ríkisstjórninni að hafna þeim afdráttarlausu tillögum og kröfum stjórnarandstöðuflokkanna, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins um að þing kæmi saman og kæmi í veg fyrir að þessi lög kæmust til framkvæmda 1. janúar og yrði þá sett nefnd í að kanna forsendur fyrir m.a. Kjaradóm en einnig fyrir þeim launabreytingum, kjarabreytingum sem eru að verða núna í þjóðfélaginu og engin sátt er um. Það er engin sátt um þær breytingar sem núna eru að verða í þjóðfélaginu á kjörum.

Ég leyfi mér t.d. að vitna í ágæta grein sem Þorvaldur Gylfason skrifar í síðasta blað Vísbendingarinnar sem ber yfirskriftina „Bað einhver um þennan ójöfnuð?“ Bað einhver um hann? Hann verður ekki til af sjálfu sér, hann verður til fyrir stefnu stjórnvalda í efnahagsmálum, í kjaramálum, í allri þeirri lagaumgerð sem lýtur að skiptingu fjár, skiptingu hinna veraldlegu gæða, og það er lagaumgerð af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Bað einhver um þennan ójöfnuð? Ekki held ég að þjóðin hafi beðið um hann. En það er þessi ójöfnuður sem er að birtast í úrskurði Kjaradóms og forsætisráðherra segir: Mér kom þetta mjög mikið á óvart. Veruleikafirring forsætisráðherra er ógnvekjandi, frú forseti.

Það er einmitt aukinn ójöfnuður, kjaramismunun í samfélaginu sem er ógnun við efnahagslegan stöðugleika og ekki bara ógnun við efnahagslegan stöðugleika, hún er líka ógnun við þá samfélagslegu vitund og samfélagslegu samkennd sem hefur verið styrkur íslensku þjóðarinnar um langt árabil. Það að allir einstaklingar eigi að hafa sama rétt til að fá að njóta sín og njóta verka sinna, m.a. í kjörum, er forsenda fyrir öflugu samfélagi sem byggist upp á samkennd eins og við höfum lengst af verið. Frá árunum 1999–2000 hefur launa- og kjaramunur, tekjumunur í samfélaginu aukist alveg gríðarlega. Sem dæmi er notaður stuðull, svokallaður Gini-stuðull, sem sýnir þetta innra jafnvægi og því lægri sem hann er, því meiri jöfnuður er.

Árið 2000 er þessi stuðull 26, á hliðstæðu róli og í öðrum ríkjum í Skandinavíu, Danmörk er t.d. með 25. En á fjórum árum hefur hann hækkað upp í 31 hér á Íslandi, miklu, miklu meira en í nágrannalöndum okkar. Við erum að sigla inn í svipað samfélag og hið bandaríska þar sem launamunurinn, kjaramunurinn, tekjumunurinn er mikill en meðaltalið sýnir mjög góða stöðu — meðaltal tekna þjóðarinnar er mjög gott en það segir bara hálfa söguna og varla það. Meðaltal á kjörum Íslendinga segir ekki neitt, er einungis blekking. Það er mismununin sem segir það sem við þurfum að fá að vita og hún vex hratt. Hún birtist m.a. í því að Kjaradómur telur að svokallaðir viðmiðunarhópar, sem honum var gert að taka mið af við ákvörðun launa æðstu embættismanna ríkisins, hafi hækkað miklu meira en laun á almennum vinnumarkaði og því verði, samkvæmt þeim lögum sem dómurinn starfar eftir, að hækka laun umræddra hópa.

Þetta þurfum við fyrst og fremst að hugsa um. Þegar við lítum nú á það frumvarp til laga sem flutt er hér eru rökin fyrir því að afnema þurfi eða fella úr gildi hluta af úrskurði Kjaradóms þau að að óbreyttu muni hann stefna stöðugleika efnahagsmála í hættu. Gott og vel, það er alveg sjálfsagt að skoða hvort þessi hækkun sé eðlileg og sanngjörn. En fyrst og fremst þarf að skoða forsendurnar því að það eru þær sem eru ógnun við hinn efnahagslega stöðugleika — dómur Kjaradóms speglar það sem er að gerast í samfélaginu, það sem er í rauninni ógnun við efnahagslegan stöðugleika.

Þess vegna leggjum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til að í umræðum um þetta mál — úr því að þessi hækkun er hvort eð er komin til framkvæmda og hægt að gera hana með einum eða öðrum hætti afturvirka — verði skoðað hvort þingið er sátt. Vill þingið hafa þann gríðarlega kjaramun sem núna er að verða í samfélaginu og hefur orðið til fyrir stefnu þessarar ríkisstjórnar, hefur orðið til fyrir efnahagsstefnu ríkisstjórnar sem keyrir efnahagssamfélag áfram á viðskiptahalla — gert er ráð fyrir að hann verði á milli 150 og 160 milljarðar á síðasta ári — keyrir áfram á gríðarlegum vaxtamun við útlönd, keyrir áfram á gríðarlegri skuldasöfnun? En það eru aðeins þeir sem hafa veð sem geta náð sér í eyðslufé með því að keyra neyslu sína á skuldum. Sú launastefna sem við stöndum frammi fyrir í úrskurði Kjaradóms er hluti af rangri efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Það á að ráðast á hana og breyta þá kjörum þingmanna og ráðherra í kjölfarið. En það á ekki að taka á þeim þáttum og því má búast við því að hér verði bara um yfirklór að ræða og horft verði fram hjá því sem er að gerast.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, rakti einmitt mjög ítarlega í ræðu sinni þessa mismunun, rakti kjör aldraðra, kjör öryrkja og kjör starfsfólks í heilbrigðiskerfinu. Kjör þessa fólks lækka hlutfallslega á móti kjörum hinna sem hafa hæstu launin. Við þekkjum þær skattabreytingar sem ríkisstjórnin hefur verið að beita sér fyrir á síðustu árum. Þær fela í sér skattaívilnanir til hátekjufólks, skattaívilnanir til þeirra sem hafa tekjur sínar af fjármagni og af hagnaði en hlutfallslega aukna skattbyrði á lægstu tekjur. Ættum við ekki að taka þetta mál fyrir líka þegar við nú ætlum að fara að búa til einhverja kjarasátt?

Það er einmitt þessi mismunun sem speglast í dómi Kjaradóms. Það er hægt að hafa áhyggjur af forsætisráðherra sem ekki gerir sér grein fyrir því að Kjaradómur speglar gjörðir ríkisstjórnarinnar eða afleiðingar þeirra sem koma fram í auknum kjaramun meðal þjóðarinnar. Það er hægt að hafa áhyggjur af forsætisráðherra sem ekki fylgist betur með því sem er að gerast í samfélaginu og velur það að kalla Kjaradóm inn á teppið og biðja hann að breyta niðurstöðu sinni og verður síðan hissa þegar Kjaradómur segir að niðurstaðan sé í samræmi við það sem lög kveða á um og spegli einungis það sem er að gerast í samfélaginu. Það er hægt að hafa áhyggjur af því að forsætisráðherra og ríkisstjórn skuli vera það veruleikafirrt að átta sig ekki á því hvað er að gerast.

Frú forseti. Það er annað sem hefur verið að gerast í þessu sambandi. Ríkisstjórnin og meiri hlutinn hér á Alþingi hafa ákveðið, í lagasetningum um einstakar nýjar stofnanir á vegum ríkisins, að forstöðumenn þeirra taki ekki laun með hefðbundnum hætti samkvæmt kjarasamningum. Nú síðast má nefna lög um samkeppniseftirlit. Það var mikið mál fyrir ári síðan að setja ný lög um samkeppniseftirlit — forstjóri Samkeppnisstofnunar var ráðinn með hefðbundnum hætti áður — og var einmitt mjög umdeilt hér á þingi. Nú ákvað þingið að forstjóri Samkeppniseftirlitsins skuli ráðinn af stjórn stofnunarinnar og forstjóri annast daglega stjórnun á starfsemi og rekstri eins og segir í 6. grein — stjórn stofnunarinnar ákveður starfskjör forstjóra.

Ég vil því spyrja hæstv. fjármálaráðherra hér: Er ætlunin að ákvarðanir af þessum toga verði teknar upp eða hvernig á að ákveða laun forstjóra Samkeppniseftirlitsins og annarra stofnana sem verið er að breyta lögum um þar sem forstöðumenn eru ráðnir utan hefðbundinna kjarasamninga? Við vorum að ræða um Fjármálaeftirlitið um daginn þar sem líka er veitt heimild til þess að ráða ákveðna starfsmenn utan hefðbundinna kjarasamninga. Það er verið að hlutafélagavæða ríkisstofnanir og er þá kannski einn tilgangurinn með því að komast hjá því að ráða viðkomandi forstöðumenn samkvæmt kjarasamningum til þess að geta borgað þeim mun hærri laun? Mér finnst ríkisvaldið, frú forseti, verða að hafa einhverja heildstæða stefnu varðandi kjör þó ekki sé nema forstöðumanna ríkisstofnana hvort sem þær eru í formi hlutafélaga eða ekki. Svo virðist ekki vera.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, frú forseti, höfum lagt fram þingmál þar sem við leggjum til að skattbyrðin verði færð af lágtekjufólki og yfir á hátekjufólk, þveröfugt við það sem ríkisstjórnin er að gera. Við höfum lagt til að fjármagnstekjuskattur verði hærri á þá sem hafa hæstar tekjur. Með þeim hætti viljum við stuðla að jöfnuði því að allt er þetta hluti af heildarkjaramynd, heildarskiptingu tekna og gjalda, samfélagslegra gjalda í samfélaginu. Það verður að horfa á alla þessa þætti saman. Þegar þetta frumvarp um breytingar á lögum um Kjaradóm verður tekið fyrir nú í nefndum þingsins finnst mér, frú forseti, eðlilegt að það fari líka til félagsmálanefndar sem hefur það hlutverk að fylgjast með jöfnuði í samfélaginu. (Forseti hringir.) Það er fleira en bara laun, frú forseti, sem hafa áhrif á kjör. (Forseti hringir.) Það eru skattar, það eru önnur gjöld, frú forseti, (Forseti hringir.) og ég vil að þetta sé allt saman skoðað heildstætt þegar farið verður ofan í þessi kjaramál.