132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[17:38]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Við fyrri spurningunni er það svar að einingarnar hafa ekki verið jafnháar. Það hefur verið mismunur á úrskurðum kjaranefndar og Kjaradóms undanfarin ár. Þar hefur verið mismunur á og einingar Kjaradóms verið lægri. En leiðréttingin varð, eins og Kjaradómur sagði, til jöfnunar í desember þannig að nú munu einingar Kjaradóms lækka aftur.

Hins vegar er það rétt hjá hv. þingmanni að verði þetta frumvarp að lögum gæti það haft áhrif á kjör þeirra sem heyra undir kjaranefnd á næsta ári verði einhverjar breytingar sem kjaranefnd hefði hugsanlega tekið tillit síðar á árinu. Hins vegar verður líka að taka tillit til þess sem ég sagði í framsöguræðu minni, að við gerum ráð fyrir að nefndin sem Jón Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra, leiðir muni vinna fljótt og vel og þá muni frumvarp og hugsanlega nýsamþykkt lög koma til framkvæmda löngu fyrr en kemur að lokum gildistíma þeirra laga sem verða til verði frumvarpið samþykkt.