132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[17:53]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég bað um andsvar en því var hafnað þannig að ég bjóst ekki við að komast upp í andsvar en það kom hér fram.

(Forseti (RG): Ég vil benda þingmanninum á að því var ekki hafnað heldur var ég að benda honum á að hann væri númer fjögur til að ljóst væri að það mundi minnka ræðutímann og það væri gott fyrir þingmenn að vita það.)

Það hefur þá orðið smámisskilningur og ég biðst afsökunar á því.

Það kom fram í ræðu hæstv. fjármálaráðherra að stjórnarandstaðan hefði bent á að ríkisstjórnin væri sökudólgurinn í þessum hækkunum. En í ágætu bréfi og greinargerð frá formanni Kjaradóms bendir hann einfaldlega á og rökstyður það rækilega í bréfi sínu að þessar hækkanir megi einmitt rekja til ákvörðunar ríkisstjórnarinnar. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann sé ósammála því sem fram kemur í bréfi formanns Kjaradóms.