135. löggjafarþing — 44. fundur,  14. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[00:30]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kann að vera að ræða mín hafi ekki verið nægilega skýr hvað þetta varðar. Kannski helgast það af því að ég var að reyna að halda stutta ræðu, reyna að hafa hana ekki of langa, því að það kemur iðulega fyrir að maður stendur hér með mikið efni og liggur mikið á hjarta en vill ekki halda of langa ræðu af því að markmiðið er ekki að halda langa ræðu. Markmiðið er að vera skýr og koma rökum sínum vel til skila. Okkur gengur það auðvitað misvel, við erum misgóðir ræðumenn en í þessu tilfelli átti ég alls ekki við að rétturinn til málþófs væri eitthvað sem nýta ætti í öllum umræðum eða alltaf í 2. og 3. umr. Þvert á móti, og það getur hv. þingmaður kynnt sér í breytingartillögum okkar á þskj. 525 þar sem við leggjum til takmarkaðan ræðutíma í 2. og 3. umr. Hins vegar höfum við aldrei viljað sleppa réttinum til málþófs til að geta átt möguleika á að fresta málum, nota það beitta vopn sem málfrelsið er í þeim tilfellum sem við teljum okkur þurfa að nýta það en við höfum líka nefnt það neyðarrétt. Þegar tillögur okkar lágu fyrir finnst mér að stjórn þingsins hafi borið skylda til að vinna sig inn í gegnum þennan ágreining og tryggja að allir hér gætu farið sæmilega sáttir heim í jólafrí.

Varðandi hitt, þetta með verslunarvöruna, bætta aðstöðu þingmanna, aukinn fjölda starfsmanna o.s.frv., þetta eru bara atriði sem búið var að semja um, hæstv. forseti, þetta eru atriði sem samið var um þegar kjördæmabreytingin fór fram og maður kaupir ekki tvisvar sama hlutinn. Það er því ekki rétt að þessi breyting sé eitthvað sem fylgir þessari þingskapalagabreytingu, þetta er eitthvað sem var komið inn löngu fyrr.