136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[17:51]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var mjög góð athugasemd hjá þingmanninum. Alþingi á að sjálfsögðu að láta koma skýrt fram að það styðji stjórnvöld í því að berjast gegn þessari beitingu hryðjuverkalöggjafarinnar og ég held að alþingismenn hafi reynt að gera það. Síðast reyndum við að kroppa upp úr formanni bankastjórnar Seðlabankans vitneskju sem hann þykist hafa. Maður er nú farinn að halda að það sé bara drýldnislegur leikur lítils stráks að reyna að látast vita eitthvað sem hann veit ekki neitt um bara til að beina að sér athygli í svartasta skammdeginu.

Það er ekki eins og við höfum ekki reynt að styðja ríkisstjórnina í því að andmæla beitingu hryðjuverkalaganna. Ég held að það sé mjög misráðið að tengja þetta við Icesave-málið eða lausn á innstæðutryggingunum. Ef við segjum að hluti af vandamálinu sé beiting hryðjuverkalaganna getum við ekki staðið gegn því að viðsemjendur okkar segi að þá hljóti beiting hryðjuverkalaganna líka að vera hluti af lausninni. Í því opnuðum við þá fyrir það að viðsemjandinn mundi segja: Ja, þá skuluð þið falla frá fyrirvörum og rétti ykkar til að bera þetta undir dómstóla — ef þið eruð á annað borð að koma hér inn með álitamál um beitingu hryðjuverkalaganna er skilyrði frá okkar hendi að þið fallið frá rétti ykkar til að bera það fyrir dómstóla.

Þess vegna held ég að það væri mjög misráðið að blanda þessu tvennu saman. Beiting hryðjuverkalaganna er mál sem við eigum að sækja sérstaklega á hendur breskum stjórnvöldum, fyrir breskum dómstólum þess vegna. Við eigum líka að sækja það sérstaklega á vettvangi Evrópusambandsins og innan EES (Forseti hringir.) en ég held að það sé misráðið að blanda þessu tvennu saman.