137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

upplýsingar varðandi ESB-aðild.

[10:31]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Bara til upplýsingar fyrir hv. þingmann sem hér talaði þá er mjög auðvelt að kynna sér þetta varðandi Evrópusambandið. Ég bendi honum hér á bókina Inni eða úti. (Gripið fram í: Ertu búinn að semja?) Þar kemur meðal annars fram, með leyfi forseta:

„Séð frá bæjardyrum Evrópusambandsins snúast aðildarviðræður í raun aðeins um það hvernig hið væntanlega nýja aðildarríki innleiðir alla gildandi sáttmála, löggjöf og stefnumið sambandsins.“

Hið eina sem er hægt að víkja út frá því eru tímabundnar undanþágur. Þetta segja bara fræðimennirnir í háskólanum sem hafa seint talist vera eitthvað annað en hallir undir það að við göngum (Gripið fram í.) í Evrópusambandið.

Ég er hjartanlega ósammála samþingmanni mínum og góðri vinkonu, Unni Brá Konráðsdóttur, þegar hún talar um að hér sé ekki um ný vinnubrögð að ræða. Þetta eru ný vinnubrögð. Þetta eru vinnubrögð meiri hlutans dag eftir dag. Í gær voru gerðar athugasemdir við að verið væri að hóta starfsmönnum Seðlabankans. Í dag enn og aftur er það komið fram að það er verið að leyna gögnum. (Gripið fram í.) Enn og aftur er þetta pukur í gangi.

Við erum ekki enn þá búin að fá listann sem hv. þm. Birgir Ármannsson bað um fyrir mörgum vikum síðan um hvaða gögn eru til í Icesave-málinu. Þetta eru ný vinnubrögð. Þetta hefur ekki verið tíðkað hér áður. Nú reynir á meiri hlutann, á stjórnarliðana. Munu þeir gera eitthvað í því í dag að koma fram með þessi gögn eða munu þeir reyna að keyra málið í gegn? Munu þeir reyna að keyra fram atkvæðagreiðslu án þess að þessi gögn komi fram? Nú reynir á stjórnarliðana.

Ég auglýsi eftir ærlegum stjórnarliðum til þess að sjá til þess að við getum hér fengið öll þau gögn sem nauðsynleg eru til að taka upplýsta ákvörðun í þessu máli.