139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[23:24]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir skemmtileg andsvör. Ég þekki því miður ekki nógu vel það mál sem hv. þingmaður vísar til. Ég efast ekki um að það sé eitthvað til í því sem hv. þingmaður segir. En við höfum Hjallastefnuskólana og ég hef ekki heyrt talað um að það eigi að leggja þá niður, leggja þá af, vegna þess að einhvers staðar hafi einhver tilraun með einhvers konar form ekki gengið upp. Við megum ekki gefast upp á því að auka fjölbreytni. Við megum ekki gefast upp á því að leita nýrra leiða af því að þegar talað er um hagræðingu og hagræðingarkröfu á þetta og hitt þá geta einkaaðilar oft gert hlutina á hagkvæmari hátt en ríkið og sveitarfélögin. Það er margsannað.

Ég mun því miður ekki vera hér á morgun til að greiða atkvæði. Þetta hefur verið góður tími og gaman að vera í þinginu. Ég ætla bara að vona að þið sem eru hér og þið sem verðið áfram á þingi berið gæfu til að laga þetta fjárlagafrumvarp þannig að við getum gefið fólkinu í landinu einhverja von sem það þarf svo á að halda.