140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[16:02]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það liggur fyrir eftir umræðu um þessa þingsályktunartillögu og afgreiðslu hennar í nefndinni að þingið er ekki enn komið á þann stað að geta tekið endanlega afstöðu til þess hvernig löggjöf um þessi efni ætti að líta út. Ég styð eindregið að slíkt frumvarp komi hingað inn og lýsi því þar með yfir að ég er jákvæður í garð þess að löggjöf um staðgöngumæðrun verði að veruleika á Íslandi. Öll efnisleg umræða um það hvernig henni verði hagað ræðst af efni frumvarpsins og þeirri meðferð sem það fær í þinginu.

Ég vil að það sé alveg skýrt að með afstöðu minni hér í dag er ég ekki búinn að taka fyrir fram afstöðu til frumvarps sem síðar kann að koma fram. Það kann vel að vera að frumvarpið verði efnislega þannig gert eða að meiri hluti þingmanna verði á öndverðri skoðun við mig um það hvernig allar megingreinar frumvarpsins eigi að líta út, að ég geti ekki treyst mér til að styðja málið þegar það kemur fram. (Forseti hringir.) Þess vegna finnst mér þeir sem leggjast gegn málinu á þessu stigi vera fullfljótir á sér að hafna hugmyndinni alfarið. Annars ættu þeir bara að stíga fram og gera það, eins og reyndar hefur verið gert hér að sumu leyti í atkvæðagreiðslunni, og það er ágætt að það komi skýrt fram á þessu stigi.