140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

vörumerki.

269. mál
[16:44]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra — ég ætla ekki að fara að nefna hverra ráðuneyta, ég hef bara tvær mínútur — fyrir framsöguna. Frumvarpið hljómar fyrst og fremst eins og tæknilegt úrlausnarefni, hefur ekki mikla pólitík eða stefnubreytingu í för með sér. Oftar en ekki eru það einmitt þessi tæknilegu mál sem hafa mikil áhrif, sérstaklega til lengri tíma.

Það vekur athygli mína að einungis er sagt við hverja var haft samráð við gerð frumvarpsins, eingöngu er nefnt samráð, að vísu er talað um ítarlegt samráð við Félag umboðsmanna vörumerkja og einkaleyfa. Nú þekki ég ekki til þess félagsskapar og ætla því ekki annað en vera til alls góðs maklegt, en það er ekki alveg sjálfgefið að félagið hafi sömu hagsmuna að gæta og neytendur. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki hafi komið til greina að hafa samráð við fleiri aðila en bara þennan félagsskap og þá er ég kannski fyrst og fremst að hugsa um neytendur.

Sömuleiðis eru tilgreind þrjú atriði sem standa upp úr varðandi efnislegar breytingar á núverandi lögum. Í þriðja atriðinu er nefnt að umsækjanda sé skylt að tilnefna umboðsmann innan Evrópska efnahagssvæðisins, EFTA eða í Færeyjum. Ég velti fyrir mér: Mun þetta þýða mikla breytingu frá því sem nú er? Þá er ég að vísa til þess viðskiptaumhverfis sem við höfum á Íslandi.