144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

hagvöxtur og efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar.

[13:41]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í gær birtust tölur um hagvöxt það sem af er þessu ári. Þær hljóta að vera okkur öllum mikið umhugsunarefni því að hann reynist varla vera fyrir hendi. Maður hlýtur í því samhengi að spyrja sig um efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og þá ábyrgð sem ríkisstjórnin ber á þessari stöðu.

Fyrir réttu ári síðan gekkst hæstv. fjármálaráðherra fyrir breytingum í skattamálum. Við gagnrýndum það harkalega að létt var sköttum svo milljörðum skipti og gjöldum af best stæðu fyrirtækjunum og af best stæðu einstaklingunum í landinu, en í öllum þessum breytingum var ekki krónu að fá í breytingar á sköttum fyrir fólk með tekjur undir 250.000 kr. Það er nú orðið sannað mál í hagfræði Vesturlanda að brauðmolakenning sú sem þessi ríkisstjórn aðhyllist, að gera vel við þá ríku en ekki við fjöldann, gengur ekki upp og skilar ekki efnahagslegum ávinningi. Besta leiðin til að tryggja aukningu einkaneyslu og tryggja almenna velsæld er að gera vel við fjöldann, þá sem eru á meðallaunum og lágum launum.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Eru þessar tölur um dapran hagvöxt ekki fullkomin staðfesting á því að skattstefna ríkisstjórnarinnar er mjög misráðin? Hún hefur ekki aukið velsæld í landinu og almennan kaupmátt heimila heldur þvert móti greitt götu fárra. Síðan boðar hæstv. fjármálaráðherra frekari álögur á þá sem minnst hafa milli handanna með hækkun á matarskatti.