144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

samningar við lækna.

[14:05]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Hann fór víða og fór að mörgu leyti ágætlega yfir þau viðhorf sem uppi eru í umræðu um íslenska heilbrigðisþjónustu í dag. Eins og kom fram í orðaskiptum okkar áðan, hv. þm. Brynhildar Pétursdóttur og mín, er brýnt að bæta í hér og þar í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Það er í sjálfu sér ekkert vandamál að koma slíkum fjármunum fyrir, það þekkjum við öll.

Engu að síður vil ég undirstrika að þær áherslur sem eru sameiginlegar þvert á pólitík eru að leggja mikla vigt inn í þennan málaflokk. Ég fagna því og ég held að ágæt samstaða sé um það.

Í umræðu dagsins má ekki heldur gleyma því sem við erum þó að gera. Ég minni á þann einbeitta vilja Alþingis í fjárlögum þessa árs að styrkja undirstöður þessarar þjónustu með ríflegum fjárframlögum. Með sama hætti fullyrði ég að umræða um tækjakost í heilbrigðisþjónustu er meira úr sér gengin en tækjakosturinn inni á sumum stofnunum. Við erum að leggja gríðarlega fjármuni í það á þessu ári og munum gera það á næsta ári sömuleiðis eftir áætlun sem kemur út úr spítölunum.

Ég tek heils hugar undir áhyggjur hv. þingmanns af þeirri stöðu sem uppi er í læknadeilunni. Ég hef verið í sambandi við aðila deilunnar og hvatt þá til að hraða því að þeir komist að sameiginlegri niðurstöðu. Ég geri mér það fullljóst að í deilu sem þessari verður ýtrustu kröfum beggja aðila aldrei náð. Samningar sem þessir kalla á málamiðlanir á báða bóga. Flest annað gengur bærilega í þessum viðræðum, annað en hrein og klár krónutala. Þar eru menn enn að þrúkka og gengur hægt.

Svo að ég botni þetta svar mitt þá hef ég miklar áhyggjur af þeirri stöðu sem þarna er að koma upp og við er að glíma. Ég vænti þess og vona svo sannarlega að deiluaðilar nái því langþráða samkomulagi sem ég veit að hv. þingmaður þráir jafn mikið og ég.