144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

samningar við lækna.

[14:07]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Eins og ég nefndi áðan vilja 90% landsmanna setja heilbrigðiskerfið í fyrsta eða annað sæti þegar þeir forgangsraða skattfé sínu á fjárlögum. Það er rétt sem hæstv. ráðherra nefnir, og ég nefndi áðan, að þessi ríkisstjórn hefur gefið eitthvað í en það virðist ekki vera nóg.

Þá er það spurningin: Hvað er brýnt og áríðandi annars vegar og hvert eigum við almennt að forgangsraða hins vegar? Það sem er brýnt og áríðandi er að ná samningum við lækna. Það hefur oft komið upp í umræðunni að við getum ekki leyft þeim að fá of mikla hækkun og umfram aðra því að þá fari aðrir af stað með sömu kröfur.

Ég hef séð þessa ríkisstjórn stíga niður fæti oftar en einu sinni og segja: Við ætlum bara að gera þetta svona. Ég held að í þessu máli, þegar kemur að því að forgangsraða í heilbrigðiskerfinu, og þá umfram það sem ríkisstjórnin hefur gert — Landspítalinn bað um 1,8 milljarða fær 1 umfram, heilbrigðiskerfið á landsbyggðinni er búið að biðja um 2,3 milljarða og er búið að fá lítið upp í það, það sem upp á vantar segja forsvarsmenn heilbrigðisstofnananna (Forseti hringir.) á landsbyggðinni.

Getur þessi ríkisstjórn ekki bara stigið niður fæti (Forseti hringir.) og sagt: Við ætlum að setja forganginn í heilbrigðiskerfið? Ef aðrir vilja fá (Forseti hringir.) hærri laun þá getum við ekki samþykkt það. Við ætlum að gera það með lækna.