144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:55]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, og góð spurning, því að þetta kom okkur mjög á óvart en hvort þetta var alveg óvart, ég get ekki svarað fyrir um það. Við fengum þær skýringar að félagasamtök hefðu orðið út undan. Ég er síðasta manneskjan til að vera á móti félagasamtökum. Ég tel þvert á móti að þau gegni mjög mikilvægu hlutverki og að við eigum að styrkja félagasamtök mjög vel. Þau eru oft að gera hluti sem ríkið ætti að vera að sinna en þau geta gert betur. En það verður þá að fara eftir öðrum leiðum, í gegnum ráðuneytin. Það er síðan okkar að hafa eftirlit með ráðuneytunum og spyrja spurninga. Ég hef til dæmis spurt um Aflið á Akureyri sem mér finnst fá smánarlega lítið úr ráðuneytinu miðað við önnur sambærileg samtök. Það er aðhaldið sem við getum veitt og við höfum rétt á upplýsingum.

En það að við séum að potast í einstaka samtökum, og ekki einu sinni við heldur bara þessir sex í meiri hlutanum, það finnst mér mjög óeðlilegt. Á sama tíma tala stjórnvöld um að við séum að fara inn í bætt vinnubrögð, með nýjum lögum um opinber fjármál, þar sem þetta verði úr sögunni. Þá finnst mér skrýtið að á sama tíma og við horfum öll á þessi nýju lög sem eitthvert undratæki og horfum fram á bætt vinnubrögð, þá vinnum við samt ekki í anda þeirra laga sem við ætlum að fara að samþykkja. Það er ekkert sem segir að við getum ekki byrjað að vinna í anda þeirra hér og nú. Þetta er svolítið eins og að fá sér rjómabollu á sunnudegi af því að maður ætlar að byrja í megrun á mánudegi. Ég skil ekki alveg þessi vinnubrögð.

Við munum mótmæla því að þetta verði aftur svona á næsta ári og sú umræða þarf að fara fram í nefndinni. Eins og ég segi: Þegar breytingartillögur meiri hlutans voru kynntar þá lá þetta bara fyrir. Engin umræða hafði farið fram um þetta fram að því, enda kom þetta okkur í opna skjöldu og minni hlutinn bókaði reyndar mótmæli við slíkum vinnubrögðum.