144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:59]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst að fréttirnar og umræðan mættu vera aðeins meira á dýptina. Leikurinn sjálfur er æsispennandi og honum er lýst, en síðan er kannski hálftíma á undan leik verið að velta því fyrir sér hvað þessi nýi þjálfari muni gera fyrir liðið; nú er þessi framherji ekki í liðinu, hvernig verður þá stillt upp og það eru alls konar pælingar. Ég hef gaman af þessu, ég tek það fram, ég veit þetta vegna þess að ég fylgist með.

Ég held að hægt væri að stilla mörgum samfélagsmálum upp á sambærilegan hátt og gera þau spennandi og gera þau aðgengilegri. Mér finnst umræðan oft ekki aðgengileg. Mér finnst gengið út frá því að allir viti hvað breytingartillaga meiri hlutans er o.s.frv. Hvað eru fjáraukalög? Stundum þarf bara að útskýra hlutina á mannamáli, mér finnst það stundum skorta.

Ég ætla ekki að gera lítið úr því að margt er vel gert en mér finnst sjónvarpið svolítið vannýtt í þessu, þegar kemur að fjárlögunum og samfélagsmálunum, því sem við erum að ræða. Af hverju er ekki Gestastofa um fjárlagafrumvarpið eins og Gestastofa um HM í fótbolta?