144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:10]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Hugmyndin um opna nefndarfundi hefur einmitt komið til tals í þingskapanefnd. Það eru rök með því og á móti því. Mér finnst það alveg tilraunarinnar virði að gera meira af því að hafa opna nefndarfundi. Það getur verið að ákveðnir fundir þurfi að vera lokaðir af góðri ástæðu, en ég tek undir það að fundargerðir eru til dæmis mjög efnislitlar, það er í rauninni ekkert á þeim að græða. Þar kemur fram hverjir koma á fundinn og ef maður getur ekki mætt þarf maður að treysta á að eiga góða að í nefndinni sem upplýsa mann um hvað fór fram á fundinum eða spyrja ritarana. Ég get alveg tekið undir þetta, mér fyndist við gætum að minnsta kosti tekið skref til að athuga hvað gerist ef við opnum nefndarfundi. Áhyggjurnar gætu snúist um að fundirnir yrðu aðeins öðruvísi og menn færu að verða meðvitaðri um að þeir eru í sjónvarpi og hegðuðu sér þá öðruvísi, ég átta mig ekki alveg á því.

Ég er alveg tilbúin að prófa það. Hugmyndin var rædd í þingskapanefnd, sem ég held að þurfi nú að halda áfram störfum því að það er margt annað sem við ræðum þar. Það mætti reyna þetta. Það hefur aðeins verið gert í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, en það er yfirleitt þegar einhver stór mál eru rædd og þá eru kannski fjölmiðlar og eitthvert hafarí í kringum það. Það mætti líka velta fyrir sér hvort allir fundir ættu að vera opnir fjölmiðlum, ekki þannig að þeir séu endilega teknir upp en að fjölmiðlafólk geti setið fundina og glósað, náð efnisatriðum. Það er hægt að útfæra þetta á marga vegu, ég er sammála því. Ég held að við eigum að taka þá umræðu vegna þess að í flestum tilfellum ætti ekki að vera mikil leynd yfir fundunum.